Enginn var tekin fyrir of hraðan akstur í umdæminu í liðinni viku,og fagnar lögregla því.
Umferðaróhapp varð í Skötufirði að kveldi 16. nóvember sl. Engin slys urðu og tjónið ekki alvarlegt, aðallega hliðarspeglar og tilheyrandi en tvær vörubifreiðar strukust saman er þær mættust.
Tvö önnur minniháttar umferðaróhöpp urðu í vikunni, annað á Ísafirði en hitt á Ströndum, rétt sunnan Hólmavíkur. Engin meiðsl urðu í þessum óhöppum.
Unnin voru skemmdarverk á Audi bifreið sem stóð mannlaus á bifreiðastæði við Stigahlíð 2 í Bolungarvík aðfaranótt laugardagsins 20. nóvember sl. Þeir sem kunna að búa yfir upplýsingum um verknaðinn eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 450 3730.
Kl.10:38 þann 18. nóv sl. var tilkynnt um vinnuslys verkamanns er var við vinnu við sjóflóðavarnagarðinn í Bolungarvík. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði. Ljósabúnaður hafði fallið á aðilann sem handleggsbrotnað.
Síðdegis laugardaginn 20. nóvember brann reykkofi og áföst vélaskemma á bæ einum í Bæjarhreppi á Ströndum. Eldsupptökin eru rakin til reykkofans en eldur mun hafa læst sig í veggjum kofans með ofangreindum afleiðingum.
Umferðarhraði í umdæminu virðist hafa verið innan hámarkshraða því enginn var kærður fyrir of hraðan akstur í liðinni viku. Er það vel.
Lögreglan hefur haft eftirlit með rjúpnaveiði og mun halda því áfram. Veiðimenn eru hvattir til að fara að settum lögum og reglum.
Þá vill lögreglan hvetja foreldra barna og ungmenna til að framfylgja útivistarreglum. Í því sambandi er minnt á að börn yngri en 12 ára mega ekki vera á almannafæri eftir kl.20:00 og börn á aldrinum 13 til 16 ára mega ekki vera á almannafæri eftir kl.22:00. Þetta á þó ekki við ef börn eru á heimleið af viðurkenndri íþrótta-, æskulýðs- eða skólaskemmtun, eða í för með forráðamönnum. Aldur miðast við fæðingaár.
Segir í yfirlti frá lögreglunni fyrir síðustu viku.