Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 19. desember 2010

Jólapistill.

Séra Sigríður Óladóttir.
Séra Sigríður Óladóttir.

Hér kemur Jólapistill frá séra Sigríði Óladóttur í Hólmavíkurprestakalli.
Jólapistillinn er einnig aðgengilegur undir Aðsendar greinar hér til vinstri á vefnum:

Að jötu þinni, Jesús, hér

kem ég með tómar hendur,

en hjarta mitt vill þakka þér,

fyrst þú ert til mín sendur.

Það eitt sem gefur gæskan þín

ég get þér fært. Öll vera mín

skal lofa lífgjöf þína.

Sigurbjörn Einarsson.


Í dag er fjórði sunnudagur í aðventu. Aðventan höfðar sterkt til margra, þá er eins og hugurinn sé opnari en endranær fyrir boðskap spámannsins: „Sjá konungur þinn kemur til þín." Og á hverjum jólum svörum við: „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins." Já, við tökum vel á móti Kristi, bjóðum hann velkominn og reynum auðvitað að sýna á okkur bestu hliðarnar. Svo líða jólin, hversdagurinn tekur við og töfrar jólanna svífa fyrr en varir á braut.

En þannig á þetta auðvitað ekki að vera. Sonur Guðs kom ekki í heiminn til þess að breyta lífi mannanna fáeina daga á ári. Jesús kom til þess að breyta öllum dögum í lífi okkar.

Lífið líður hjá með ógnarhraða, æskan líður alltof fljótt. Árstíðir koma og fara. Áhyggjur og gleði liðins árs gleymast. Lífið sjálft kemur og fer. Þessi jól munu líða. Hlutir sem eru okkur mikilvægir nú hverfa og gleymast. En góðu tíðindin eru þau að við eigum Guð að sem stendur ekki á sama um okkur, Guð sem lét sér svo annt um okkur að hann sendi son sinn til að frelsa okkur. Þess vegna þurfa jólin ekki að taka enda þegar veisluhöldunum lýkur.

Ef við finnum raunverulega fyrir nærveru Jesú, sem fæddist, lifði og dó og reis upp vegna okkar, þá munu jólin ekki taka enda, hvorki að kvöldi jóladags né nokkurn tíma.

Kristur sem kom til okkar í auðmýkt á hinum fyrstu jólum vill koma til okkar nú, búa með okkur og færa okkur sömu gleði og von og hann gerði þá.

Megi Kristur vera með okkur öllum á þessum jólum og alla daga. Megi hann fá að vinna það verk í okkur sem honum var ætlað, að breyta okkur, hafa áhrif til góðs á tilveru okkar.

Guð gefi okkur náð til þess að feta í fótspor Krists, svo að við eignumst sanna og varanlega jólagleði.

Gleðileg jól!
Sigríður Óladóttir.

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 18. desember 2010

Ískönnun Landhelgisgæslu frá í dag.

Kort Landhelgisgæslu.
Kort Landhelgisgæslu.
Landhelgisgæslan fór í ískönnun á TF-SIF í dag hér eru nokkrar staðsetningarpunktar:
Í dag var farið í eftirlits- og hafískönnun undan Vestfjörðum. Í ljós kom að hafís er mun fjarri landi en í síðustu könnun á flugvélinni þann 14 des.

Ísrönd sjáanleg á ratsjá liggur um eftirfarandi staði:
1. 6604 - 2740

2. 6616- 2613

3. 6624- 2538

4. 6644-2502

5. 6646- 2522

6. 6654-2521

7. 6709-2420

8. 6729-2355

9. 6740-2246

Stakir ísjakar eru við ísröndina, á siglingarleiðinni fyrir Húnaflóann er borgarísjaki á

Stað: 66°21.0N 021°19.0W og annar líklega landfastur undan Hælavíkurbjargi á

stað: 66°26.N 022°20.0W.
Veður og skyggni var mjög slæmt í fluginu og kom því radsjáin að góðum notum í þessu flugi sem og öðrum.

 


 

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 18. desember 2010

Íshrafl á fjörum.

Eitt af stærri brotunum úr jakanum.
Eitt af stærri brotunum úr jakanum.
1 af 3
Smá íshrafl hefur komið hér í Ávíkina fyrir neðan veðurstöðina í Litlu-Ávík og Stóru-Ávíkur megin við ána.

Það er eins og einn lítil hafísjaki hafi komið inn í gærkvöld eða í nótt og splundrast við svonefnd Hjallsker hér í minni víkurinnar.

Þetta sást í birtingu í morgun.

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 18. desember 2010

Hafísinn molnar og tætist í burtu.

Ratsjármynd JHÍ.Ísinn virðist tætast í sundur og í burtu.
Ratsjármynd JHÍ.Ísinn virðist tætast í sundur og í burtu.
Ísinn virðist vera að sópast og tætast í burtu.

Á ratsjármynd frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands frá því kl. 23:45 í gærkvöldi þar sem Ingibjörg Jónsdóttir hefur merkt inn jaðar íssins,sést að ísinn er ekkert í líkingu við það sem verið hefur undanfarið.;Það virðist vera íshrafl í ca 5 sjómílna fjarlægð frá Kögri og Hælavíkurbjargi en ísinn er orðinn mjög gisinn og bráðnar vonandi fljótt.Það er orðið alllangt í meginísinn á Grænlandssundi.Eitthvað af jökum gæti verið talsvert nálægt landi á norðanverðum Ströndum og skip ættu að fara mjög varlega næstu daga því það er mjög erfitt að sjá litla jaka og gisinn ís á ratsjármyndum þegar öldurót er svo mikið eins og er nú.

Það geta fundist hafísjakar og borgarís utan við línuna sem teiknuð er á myndina, en það voru amk engin sýnileg merki á ratsjármyndinni um ís utan hennar,segir Ingibjörg með útskýringu með myndinni;

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 17. desember 2010

Snarvitlaust veður.

Litla-Ávík.Myndasafn.
Litla-Ávík.Myndasafn.
Nú geysir stormur og rok úti af Norðri.

Í morgun klukkan sex var strax orðið hvasst hér í Árneshreppi,enn á veðurstöðinni í Litlu-Ávík var þá gefin upp norðan 18 m/s í jafnavind og 20 m/s í mesta vind eða kviðu,svipað var klukkan níu í morgun.

Enn á hádegi hafði bætt í vind og var þá Norðan 21 m/s í jafnavind og mesti vindur var þá 25 m/s.

Nú um miðjan dag bætir enn í vind og talsverð snjókoma en él voru fyrst í morgun.

Veðrið var þannig klukkan þrjú í dag í Litlu-Ávík sýndu mælar Norðan 25 m/s og í mesta vind voru 31 m/s.

Á sjálfvirku stöðinni á Gjögurflugvelli klukkan þrjú var Norðan 23 m/s og mesti vindur fór í 29 m/s.Vindur fer því í gömul 11 vindstig á báðum stöðum.

Rafmagn hefur haldist inni en vart hefur verið við blikk.

Rafmagn fór svo af nú í smá tíma þegar fréttamaður ætlaði að fara að setja frétt inná síðuna um óveðrið.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 16. desember 2010

Við ysta haf- ljósmyndabók Hrafns Jökulssonar.

Kápa bókarinnar,Við ysta haf eftir  Hrafn Jökulsson.
Kápa bókarinnar,Við ysta haf eftir Hrafn Jökulsson.
Á morgun föstudaginn 17. desember kemur út ljósmyndabókin "Við ysta haf -- Mannlíf og náttúra í Árneshreppi á Ströndum" sem hefur að geyma myndir Hrafns Jökulssonar. Bókin verður kynnt á Hressó, Austurstræti, klukkan 17 á föstudaginn og eru allir velkomnir þangað.
Í bókinni er að finna myndir sem Hrafn hefur tekið í Árneshreppi á síðustu árum, bæði af heimamönnum í leik og starfi, dýralífi og náttúru.
Þetta er fyrsta ljósmyndabók Hrafns, en hann hélt sýningu í Kaffi Norðurfirði sumarið 2008, og árið 2007 gaf hann út bókina "Þar sem vegurinn endar" sem fjallar um Árneshrepp að fornu og nýju.
Hægt er að panta bókina, sem kostar 5000 krónur, hjá Hrafni í hrafnjokuls@hotmail.com eða í síma 6950205.
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 16. desember 2010

Ískönnun TF GNÁ í dag.

Hitamynd kl-13:46 í dag.frá JHÍ.
Hitamynd kl-13:46 í dag.frá JHÍ.

Ískönnun TF GNÁ.
Komið í íshrafl og smá jaka á stað 66°25,5N 023°43,7V, að ísspöng með þéttleika 4-5/10 á stað 66°33,7N 023°57,4V. Fylgt spönginni til suðvesturs á stað 66°25,8N 025°04,9V, þaðan liggur ísspöngin í 240° réttvísandi. Austan við þessa punkta eru stakir jakar og íshrafl en norðan og vestan við þéttist ísinn mjög.

Kort sem fylgir þessari tilkynningu frá LHG má sjá  á vef Hafísdeildar Veðurstofunnar.
Hér er einnig hitamynd frá Jarðvísindastofnun Háskólans frá í dag,samkvæmt henni eru um 10 sjómílur í hafís NV af Straumnesi.
Einnig er mjög mikið um nýmyndun á ís í kalda sjónum.
Sjófarendur eru beðnir að sigla með varúð fyrir Horn.Nú er spáð vaxandi Norðanátt og ísinn getur því færst hratt nær landi.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 16. desember 2010

Tíu sóttu um.

Frá Norðurfirði.
Frá Norðurfirði.

Alls sóttu 10 einstaklingar um nýja stöðu félagsmálastjóra fyrir Árneshrepp-Strandabyggð og Reykhólahrepp, 7 konur og 3 karlar. Þá bárust 6 umsóknir um nýja stöðu tómstundafulltrúa Strandabyggðar en 3 konur og 3 karlar sóttu um starfið. Verið er að vinna úr umsóknum og stefnt er að því að ganga frá ráðningum fyrir jól.
Þetta kemur fram á vef Strandabyggðar.

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 15. desember 2010

Kortlagning þekkingar á Vestfjörðum.

Frá Árnesi II.Handverkshúsið Kört.
Frá Árnesi II.Handverkshúsið Kört.

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands eru þessa dagana að kortleggja þekkingu á Vestfjörðum.  Í samfélaginu er fjöldi fólks með margvíslega þekkingu og kunnáttu sem það gæti haft áhuga á að koma á framfæri til að geta mögulega skapað sér aukin tækifæri með þeirri þekkingu.  

Auðvelt er að finna fyrirtæki og stofnanir og skrá starfssemi þeirra en erfiðara er að kunna skil á allri þeirri þekkingu sem finna má hjá einstaklingum á svæðinu. Því er óskað liðsinnis við þessa vinnu.  

Ef þú býrð yfir þekkingu sem þú vilt koma á skrá svo sem kunnáttu í handverki, hönnun, tungumálum, markaðsþekkingu, margmiðlun, tæknikunnáttu, þekking á internetinu, verkþekkingu og margt, margt fleira, hafið þá samband við Ásgerði Þorleifsdóttur hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða í síma 450-3053, netfang: asgerdur@atvest.is eða Sigríði Ó. Kristjánsdóttur hjá Impru í síma 522-9462, netfang: sirry@nmi.is.

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 15. desember 2010

TF-Sif fór í ískönnunarflug.

Radarmynd úr TF-SIF sem sýnir ísjaðarinn.
Radarmynd úr TF-SIF sem sýnir ísjaðarinn.
Við eftirlitsflug Sifjar, flugvélar Landhelgisgæslunnar í gærkvöldi kom í ljós að hafís var staðsettur næst landi um 48 sjómílur VNV af Grímsey, 46 sjómílur ANA af Horni. 34 sjómílur norður af Skagatá og 25 sjómílur NNV af Straumnesi. Kallað var í skip kl. 00:03 sem statt var norðaustur af Horni, á leið til Ísafjarðar, til að fá upplýsingar um ísinn sem hann sigldi í gegnum. Sigldi hann þá í gegnum dreifar og þéttan ís. Um hálftíma síðar hafði skipið samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti um ca 30 metra háan borgarísjaka á stað: 67°10,45´N-020°14,7´V sem sást allvel í ratsjá. Þéttleiki hafíss í næsta nágrenni var þá um 3/10.

Búist er við að hafísinn kunni að færast nær landi þegar vindur snýst í sterka norðvestanátt í dag og síðan í norðanátt.
Segir á vef Landhelgisgæslu.

Atburðir

« 2025 »
« Júlí »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Úr myndasafni

  • Þessi eining komin á sinn stað.27-10-08.
  • Bátar í Litlu-Ávík.
  • Unnið við kjöljárn,Ástbjörn og Sigursteinn.18-12-2008.
  • Gíslína-Júlíana-Villi-Eysteinn og Jenssína.
Vefumsjón