Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 29. desember 2010

Jóli komin austur fyrir Reykjaneshyrnu.

Jóli í dag ca 8 km A af Reykjaneshyrnu.
Jóli í dag ca 8 km A af Reykjaneshyrnu.
1 af 2
Borgaísjakinn Jóli er nú á fleygiferð í vestanáttinni,var í gær um það bil 15 km NNA af Reykjaneshyrnu,enn var í dag kl:14:30 komin ca átta kílómetra austur fyrir Reykjaneshyrnuna,og virðist reka nokkuð hratt í ASA inn flóann.

Athugað verður með borgarísjakann Jóla á morgun ef veður og skyggni leifa.

Tvær myndir eru hér með fyrri myndin tekin í dag við eyðibýlið Reykjanes og seinni myndin í gær af Lambanestanganum við Litlu-Ávík.Þetta eru frekar slæmar myndir en fjarlægðin er líka nokkur.

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 29. desember 2010

Árneshreppur fær 15 tonn.

Frá Norðurfirði.
Frá Norðurfirði.
Landbúnaðar og sjávarútvegsráðuneytið hefur úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2010 til 2011.

Úthlutun til sveitarfélaga á Ströndum er eftirfarandi:

Árneshreppur fær úthlutað 15 tonnum.Kaldrananeshreppur fær úthlutað 85 tonnum og Strandabyggð fær úthlutað 100 tonnum.
Úthlutun byggðakvóta má sjá á vef Landbúnaðar og sjávarútvegsráðuneytis.

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 29. desember 2010

Ný velferðarnefnd.

Frá Árneshreppi,Árnesey og séð til Norðurfjarðar.
Frá Árneshreppi,Árnesey og séð til Norðurfjarðar.
Bæjarins besta.
Ný velferðarnefnd Árneshrepps, Kaldrananeshrepps, Strandabyggðar og Reykhólahrepps hittist á sínum fyrsta formlega fundi 4. janúar. Sveitarfélögin samþykktu í nóvember að stofna sameiginlega félagsmálanefnd og stofna formlega félagsþjónustu. Í nýju nefndinni verða fimm fulltrúar, tveir fulltrúar frá Strandabyggð og einn fulltrúi frá hinum sveitarfélögunum. Velferðarnefndin hittist á sínum fyrsta óformlega fundi á skrifstofu Strandabyggðar 3. desember þar sem farið var yfir erindisbréf og samning um nefndina og sameiginlega félagsþjónustu.
Frá þessu er sagt á www.bb.is


Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 28. desember 2010

Borgarísjakinn Jóli hefur færst austar.

Borgarísjakinn Jóli sem sést hefur frá Litlu-Ávík.
Borgarísjakinn Jóli sem sést hefur frá Litlu-Ávík.
1 af 2
Í dag fór Jón G Guðjónsson veðurathugunarmaður að athuga betur með borgarísjakann sem sést hefur frá Litlu-Ávík,raunar úr eldhúsglugganum enn sást ekki þaðan um hádegið.

Farið var út á Lambanestanga og aðeins uppí Reykjaneshyrnu með sjónauka.

Borgarísjakinn er núna um það bil 15 km NNA af Reykjaneshyrnu og hefur færst austar,íshrafl er í kringum jakann sem gæti verið hættulegt skipum og bátum.

Jón hefur gefið þessum borgarísjaka nafnið Jóli,enda sást hann fyrst þann 22 desember,og búin að vera yfir jólin.

Mjög sjaldgæft er að borgarís sé á Húnaflóa í desember en aftur á móti algengt í ágúst og september.
Fyrri myndin er af borgarísjakanum þann 22 desember,en síðari myndin er kort frá Landhelgisgæslu Íslands sem þar var útbúið í ísflugi í dag.Kortið er af hafísvef Veðurstofu Íslands.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 28. desember 2010

Strandamaður ársins 2010 valinn.

Sigurður Atlason var kosin Strandamaður ársins í fyrra.
Sigurður Atlason var kosin Strandamaður ársins í fyrra.

Vefurinn strandir.is hefur nú ákveðið að standa fyrir kosningu á Strandamanni ársins sjöunda árið í röð. Tilgangurinn með því er að vekja fólk til umhugsunar um allt það sem vel er gert í samfélaginu og þá sem standa sig með prýði. Hægt verður að senda inn tilnefningar fram að miðnætti á þrettándanum, fimmtudaginn 6. janúar. Allir Strandamenn nær og fjær eru hvattir til að taka þátt, en í síðari umferð verður valið á milli þeirra þriggja sem flestar tilnefningar fá.

Þeir sem hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að vera valdir Strandamenn ársins af samferðamönnum sínum eru:

2004  Sverrir Guðbrandsson  eldri á Hólmavík
2005  Guðbrandur Einarsson  frá Broddanesi
2006  Sandra Dögg Guðmundsdóttir á Drangsnesi
2007  Ásbjörn Magnússon og Valgerður Magnúsdóttir á Drangsnesi 
2008  Ingibjörg Sigvaldadóttir  frá Svanshóli
2009  Sigurður Atlason á Hólmavík. 
Undir þessum tengli er hægt að kjósa Strandamann ársins 2010.

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 27. desember 2010

Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 20. des til 27. desember 2010.

Tíðindalítil jólavika hjá lögreglunni á Vestfjörðum.
Tíðindalítil jólavika hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

S.l. vika var tíðindalítil hjá lögreglunni á Vestfjörðum, skemmtanahald um hátíðarnar fór vel fram og án teljandi afskipta lögreglu. Umferð á vegum gekk nokkuð vel í vikunni fyrir jól, þrátt fyrir að færð og veður var frekar leiðinlegt, skyggni á köflum mjög slæmt og hálka.

Þó var eitt umferðaróhapp  tilkynnt til lögreglu þriðjudaginn  21. des. Bíll á leið um Seiðisfjörð í Ísafjarðardjúpi hafnaði út fyrir veg, valt ekki, en hallaðist verulega. Ökumaður og farþegar treystu sér ekki til að bíða í bílnum þar til aðstoð bærist, þar sem hætta var á að bifreiðin ylti, en mjög bratt var þar sem bíllinn fór útaf.  Fljótlega komu að aðrir vegfarendur sem aðstoðuðu fólkið þar til lögregla kom á vettvang, en í millitíðinni hafði verið ræstur út björgunarsveitarbíll frá Súðavík, fólkinu til aðstoðar.  Þegar lögregla og björgunarsveit kom á vettvang var ekki gerlegt að ná bílnum upp vegna veðurs og fékk fólklið far með lögreglu til Ísafjarðar. Rekja má þetta óhapp til mjög slæmra akstursskilyrða.

Miðvikudaginn 22. des kom upp eldur í íbúðarhúsnæði við Aðalstræti á Ísafirði. Slökkvilið  og lögregla kom á vettvang og gekk greiðlega hjá slökkviliði Ísafjarðarbæjar að slökkva eldinn. Eldsupptök mátti rekja til olíublautrar tusku sem skilin hafði verið eftir, en tuskan hafði verið notuð til að bera olíu á við, gólfboð. Um var að ræða sjálfsíkveikju í tuskunni.

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 27. desember 2010

Reykjavík - Borgarnes - Búðardalur - Króksfjarðarnes - Hólmavík.

Rúta frá Bílar og fólk.Myndin er af vefnum sterna.is
Rúta frá Bílar og fólk.Myndin er af vefnum sterna.is

Fyrirtækið Bílar og fólk ehf.Sterna og Vegagerðin hafa gert með sér samkomulag um framlengingu á sérleyfisakstri vegna ársins 2011, þar á meðal á akstri á leiðinni Reykjavík-Hólmavík.
Ein ferð í viku er farin norður Strandir frá Reykjavík til Hólmavíkur og verður því hætt um áramótin. Seinasta ferðin verður farin þann 30. desember n.k.

Einnig er ferðum fækkað í Dalina, frá Reykjavík til Búðardals og ekki verður lengur ekið í Bjarkarlund og Reykhóla. Í staðin verður farið þrisvar í viku um Arnkötludalinn til Hólmavíkur. Þessi leið verður ekin þrisvar í viku hverri og er farið frá Reykjavík á þriðjud. og föstudögum kl. 08:30 og sunnudögum kl. 13:00. Frá Hólmavík er farið kl. 12:30 á þriðjud. og föstudögum og kl. 17:00 á sunnudögum.
Nánar má sjá um áætlunarferðir á www.sterna.is

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 26. desember 2010

Hitabylgja og mikil úrkoma.

Úrkomumælir í Litlu-Ávík.
Úrkomumælir í Litlu-Ávík.
Það var aldeilis hitabylgja sem gekk yfir Strandir í dag.

Hitinn náði 11,2 stigum í dag á veðurstöðinni í Litlu-Ávík í Árneshreppi og virðist það hafa verið næst mesti eða þriðji mesti hiti á landinu í dag,en á Hvanneyri mældist mesti hiti í dag 11,8 stig,og eitthvað svipað á Siglufirði.(vantar nákvæma tölu).

Nú í kvöld og nótt á að kólna aftur.

Úrkoman var líka mjög mikil á veðurstöðinni í Litlu-Ávík í dag, mældist 42,3 mm síðasta sólarhring eða frá kl 18:00 í gær og til kl 18:00 í dag.

Þetta er meir en helmings úrkoma í desember undir venjulegum kringumstæðum,en frekar lítil úrkoma hefur verið það sem af er desember.

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 26. desember 2010

Jólaguðsþjónusta í Árneskirkju.

Árneskirkja.
Árneskirkja.
Jólaguðsþjónusta var í Árneskirkju í dag annan jóladag klukkan tvö.

Prestur var séra Sigríður Óladóttir og orgelleikari var Gunnlaugur Bjarnason, kór Árneskirkju söng. Jólamessan var vel sótt í dag að venju Árneshreppsbúa, þrátt  fyrir leiðinda veður,Suðaustan strekking og lemjandi rigningu en mjög hlýtt er miðað við árstíma.

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 26. desember 2010

Rafmagnstruflanir í gærkvöld.

Orkubú Vestfjarða Hólmavík.
Orkubú Vestfjarða Hólmavík.
Talsvert var um rafmagnstruflanir í gærkvöld og fram á nótt.

Rafmagn fór fyrst af rétt fyrir tíu í gærkvöld enn kom þá aftur strax,síðan fór rafmagn af fyrir miðnætti og var nokkuð fram á nótt.

!Að sögn starfsmanns Orkubús Vestfjarða á Hólmavík var fyrst um að ræða ísingu á línum,síðan slitnaði ein lína í Drangsneslínu sem olli þessum rafmagnstruflunum,en rafmagn var komið aftur á uppúr klukkan eitt í nótt eftir viðgerð á línunni til Drangsnes."

Veður var akkúrat hlýnandi á þessum tíma hiti fór úr - 2 gráðum í +3 stiga hita.

Atburðir

« 2025 »
« Júlí »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Úr myndasafni

  • Skip á Norðurfirði.
  • Aðventuljós í glugga.18-12-2008.
  • Ægir Thorarensen kemur á Agnesi Guðríði ÍS-800.
  • Náð í einn flotann.
Vefumsjón