Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 20. des til 27. desember 2010.
S.l. vika var tíðindalítil hjá lögreglunni á Vestfjörðum, skemmtanahald um hátíðarnar fór vel fram og án teljandi afskipta lögreglu. Umferð á vegum gekk nokkuð vel í vikunni fyrir jól, þrátt fyrir að færð og veður var frekar leiðinlegt, skyggni á köflum mjög slæmt og hálka.
Þó var eitt umferðaróhapp tilkynnt til lögreglu þriðjudaginn 21. des. Bíll á leið um Seiðisfjörð í Ísafjarðardjúpi hafnaði út fyrir veg, valt ekki, en hallaðist verulega. Ökumaður og farþegar treystu sér ekki til að bíða í bílnum þar til aðstoð bærist, þar sem hætta var á að bifreiðin ylti, en mjög bratt var þar sem bíllinn fór útaf. Fljótlega komu að aðrir vegfarendur sem aðstoðuðu fólkið þar til lögregla kom á vettvang, en í millitíðinni hafði verið ræstur út björgunarsveitarbíll frá Súðavík, fólkinu til aðstoðar. Þegar lögregla og björgunarsveit kom á vettvang var ekki gerlegt að ná bílnum upp vegna veðurs og fékk fólklið far með lögreglu til Ísafjarðar. Rekja má þetta óhapp til mjög slæmra akstursskilyrða.
Miðvikudaginn 22. des kom upp eldur í íbúðarhúsnæði við Aðalstræti á Ísafirði. Slökkvilið og lögregla kom á vettvang og gekk greiðlega hjá slökkviliði Ísafjarðarbæjar að slökkva eldinn. Eldsupptök mátti rekja til olíublautrar tusku sem skilin hafði verið eftir, en tuskan hafði verið notuð til að bera olíu á við, gólfboð. Um var að ræða sjálfsíkveikju í tuskunni.