Friðrik hlakkar til að koma á Strandir
Skákhátíðin í Árneshreppi hefst á föstudagskvöldið klukkan 20 með tvískákarmóti í síldarverksmiðjunni í Djúpavík. Tvískák er skemmtilegt keppnisform þar sem tveir eru saman í liði og ævintýramennskan ræður ríkjum.
Klukkan 13 á laugardag verður Afmælismót Friðriks Ólafssonar í Djúpavík 2010 sett. Tefldar verða 9 umferðir og eru veitt verðlaun í fjölmörgum flokkum, meðal annars barna, heimamanna, stigalausra skákmanna o.fl. Þá verður best klæddi keppandinn valinn, sem og háttvísasti keppandinn, og eru báðir leystir út með veglegum (og gómsætum) vinningum. Heildarverðlaunafé á mótinu er um 200 þúsund krónur.
Á sunnudag klukkan 12.30 verður hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði, þar sem tefldar verða 6 umferðir með 5 mínútna umhugsunartíma.