Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 28. júní 2010

Talsverður ís enn úti fyrir Húnaflóa.

Ísmynd Modis gervitunglamynd frá því í gær.
Ísmynd Modis gervitunglamynd frá því í gær.
1 af 2

Talsverður ís er enn úti fyrir Húnaflóa  þrátt fyrir ríkjandi Norðaustanáttir úti fyrir,þótt NV eða N áttir hafi verið til landsins hér vestan til við flóann.Straumar virðast hafa betur í bili á rek íssins.
Ingibjörg Jónsdóttir hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sendi vefnum þessar myndir í gærkvöldi,það eru gervitunglamyndir sem sína ísjaðarinn vel.

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 27. júní 2010

Vefsíða um öryggismál ferðamanna.

17 aðilar skrifuðu undir samstarfssamning um öryggismál ferðamanna.Myndin er af vef VÍ.
17 aðilar skrifuðu undir samstarfssamning um öryggismál ferðamanna.Myndin er af vef VÍ.

Í byrjun júní 2010 skrifuðu sautján aðilar, er koma að ferðaþjónustu á einn eða annan hátt, undir samstarfssamning í Krýsuvík um öryggismál ferðamanna.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur á undanförnum árum beitt sér í auknum mæli að öryggismálum ferðamanna, til dæmis með Hálendisvakt björgunarsveitanna. Í ár var ákveðið að ganga skrefinu lengra og efla forvarnir með því að ná saman flestum þeim er koma að öryggi ferðafólks. Leitað var til félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana í þeim tilgangi að nýta betur fjármuni, þekkingu og reynslu þeirra.

Þessir aðilar hafa sameinast um einn vettvang þar sem allar upplýsingar um örugga ferðamennsku eru aðgengilegar. Sá staður er vefsíðan www.safetravel.is ásamt blaði með sama nafni. Þar eru upplýsingar um margs konar útivist, íslenska náttúru og veður. Jafnframt verða tenglar inn á landakort, færð á vegum, veðurhorfur, afþreyingu og fleira.
Nánar hér á vef Veðurstofu Íslands.

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 27. júní 2010

Hjólbarðaviðgerðum hætt.

Jón G Guðjónsson hefur hætt hjólbarðaþjónustu.
Jón G Guðjónsson hefur hætt hjólbarðaþjónustu.
Hjólbarðaþjónustu er nú hætt í Litlu-Ávík í Árneshreppi.

Hjólbarðavél er hálfbiluð,það bognaði armur fyrir sleða og hann er ekki til í landinu fyrr enn seint í sumar.

"Í viðtali við Litlahjalla segir Jón Guðjónsson að hann geti gert við dekk með tappaviðgerð utanfrá en að taka dekk af felgu er ekki hægt með góðu móti.

Jón segir ennfremur að hann hugsi sér ekki að leggja í mikinn kostnað við hjólbarðavélina enda hafði hann hugsað sér að hætta í fyrrahaust,enda búin að vera með þessa þjónustu síðan 1996 eða í nú í 14 ár,enn nú sé sjálfhætt,enn bendir á að bílaþjónusta sé í Djúpavík og þar er gert við dekk einnig!

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 26. júní 2010

Bændafundur í Trékyllisvík.

Fundurinn verður í Félagsheimilinu í Trékyllisvík.
Fundurinn verður í Félagsheimilinu í Trékyllisvík.
Strandir.
Félag sauðfjárbænda í Strandasýslu stendur fyrir umræðufundi um málefni sauðfjárbænda í félagsheimilinu Árnesi í Trékyllisvík mánudaginn 28. júní og hefst hann kl. 20:30. Formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, mætir á staðinn og verður með framsögu á fundinum. Veitingar verða í boði.
Þetta kemur fram á www.strandir.is
Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 25. júní 2010

Vegagerðin vinnur í vegum.

Hannes Hilmarsson stjórnar Brjótnum.Grjótmulningsvél.
Hannes Hilmarsson stjórnar Brjótnum.Grjótmulningsvél.
1 af 2
Vegagerðin á Hólmavík hefur verið með endurbætur á vegum hér í Árneshreppi í vor og núna undanfarna daga.

Í maí var borið ofan í þjóðveginn frá Kjós og yfir Veiðileysuháls.Vegagerðin átti til harpað efni í Kjós í Reykjarfirði og í Byrgisvík.

Nú í vikunni hefur verið unnið í svonefndum Urðum sem er á milli Mela og Norðurfjarðar,sem eru brattar skriður,þar tollir lítill ofaníburður,þar lét Vegagerðin rífa upp með hefli í rastir á miðjan vegin síðan kom stór traktor með Brjót  eða grjótmyljara sem er mjög sniðugt tæki.

Síðan er efninu jafnað út aftur sem er þá orðið fínt malarefni.

Það má því segja að efnið sé endurunnið á staðnum.

Eins var verið að gera þetta víða á köflum á vegunum nú í vikunni.

Að sögn Sverris Guðbrandssonar vegaverkstjóra er verið að vinna fyrir þetta litla fjármagn sem til er,og laga verstu kaflana.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 24. júní 2010

Viðvaningur.

Viðvaningur forsíða.
Viðvaningur forsíða.
Nýlega kom út bók sem ber heitið Viðvaningur eða smíðabæklingur handa unglingum. Samantekinn úr ýmsum bókum og eptir eigin reynslu með 13 myndum af Þorsteini Þorleifssyni.

Bók þessi var upphaflega send til prentunar á Akureyri árið 1868 og mun hafa verið boðin Búnaðarfélagi Suðuramtsins til prentunar nokkrum árum síðar. Ekki er vitað um ástæður þess að í hvorugt skiptið varð af útgáfu, en þar sem handrit að bókinni er til þótti full ástæða til að skrifa það upp og gefa út. Rétt þótti að halda upphaflegri forsíðu þótt myndirnar 13 sem þar er getið hafi því miður ekki fundist og vanti því í bókina.

Höfundurinn, Þorsteinn Þorleifsson, fæddist árið 1824 en drukknaði árið 1882. Hann var Austur-Húnvetningur að ætt, en bjó í 24 ár í Strandasýslu, lengst af í Kjörvogi í Árneshreppi. Járnsmíði nam hann í Reykjavík og í Kaupmannahöfn og vann ávallt við smíðar samhliða búskap og sjómennsku. Þorsteini rann til rifja hve erfitt var fyrir unglinga og aðra sem höfðu náttúru til smíða að nálgast upplýsingar eða fá tilsögn og því réðst hann í það þrekvirki að taka efni bókarinnar saman.

Bókin er 100 blaðsíður að stærð í A5 broti og skiptist í 138 tölusetta kafla. Hún er að miklu leyti um málma eins og járn, eir, gull og silfur, auðkenni málmanna, smíðar úr þeim, gyllingu og fleira. Einnig um litun á tré og beinum. Ýmis konar húsráð eru í 6 öftustu köflunum. Aftan við meginmálið er eftirmáli höfundar og loks ritar hann stutta athugasemd.

Afkomandi Þorsteins, Hallgrímur Gíslason frá Gröf við Bitrufjörð, skrifaði handritið upp, ritaði formála, vann orðskýringar og gaf bókina út.

Sýning um ævi og muni Þorsteins Þorleifssonar verður opnuð í Minja- og handverkshúsinu Kört í Árnesi í Trékyllisvík laugardaginn 26. júní næstkomandi og verður bókin þar til sölu. Einnig er hægt er að panta eintak hjá útgefanda í netfanginu hallg@simnet.is.

| fimmtudagurinn 24. júní 2010

Skemmtileg og vel heppnuð skákhátíð

Kristjana Ásbjörnsdóttir og Jóhann Hjartarson.
Kristjana Ásbjörnsdóttir og Jóhann Hjartarson.
1 af 5

Friðrik Ólafsson hefur komið til Galapagoseyja, en leið hans lá í fyrsta skipti á Strandir um síðustu helgi þegar slegið var upp afmælismóti honum til heiðurs í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík. Friðrik, sem er 75 ára, var fyrsti stórmeistari Íslendinga og um árabil meðal sterkustu skákmanna heims. Margir góðir gestir tóku þátt í hátíðinni, m.a. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, sem lék fyrsta leikinn fyrir Friðrik í skák hans við Árnýju Björnsdóttur.

Fleiri kempur íslenskrar skáksögu mættu til leiks í Djúpavík og voru keppendur alls 40. Helgi Ólafsson freistaði þess að sigra í þriðja skipti í röð í gömlu síldarverksmiðjunni, en Jóhann Hjartarson sló honum við að þessu sinni. Jóhann tefldi af miklu öryggi, tapaði ekki skák og hlaut 8 vinninga af 9 mögulegum. Helgi fékk 7,5 og afmælisbarnið Friðrik 6,5.


Fimm skákmenn hlutu 6 vinninga: Hlíðar Þór Hreinsson, Róbert Lagerman, Guðmundur Kjartansson, Sigurður E. Kristjánsson og Sigríður B. Helgadóttir. Efstur Strandamanna varð Jakob Thorarensen frá Gjögri.


Keppendaflóran í Djúpavík var fjölskrúðug. Þarna voru stórmeistarar og stórbændur, börn og byrjendur, og fantasterkir áhugamenn úr öllum landshornum. Óhætt er að segja að síldarverksmiðjan skapi ævintýralega umgjörð um skákþing og afar góð stemning ríkti í gömlu mjölgeymslunni.

Bryddað er upp á ýmsum nýmælum á skákfundum á Ströndum. Þannig var Árný Björnsdóttir frá Melum valin best klæddi keppandinn, en áður hafði hún sungið sig inn í hjörtu skákmanna og gesta, ásamt Ellen systur sinni. Flutningur þeirra á lagi Jóns Nordals, Smávinir fagrir, var undursamlegur.

Síðast en ekki síst var háttvísasti keppandinn verðlaunaður með dýrindis lambalæri frá Melum, en þar er sauðfjárrækt í senn vísindi og list. Allir hegðuðu sér vel í Djúpavík og hefðu verðskuldað lambalærið góða, en það kom auðvitað í hlut mesta heiðursmanns sem íslensk skáksaga kann frá að greina - Friðriks Ólafssonar.

 

Lokahnykkur Skákhátíðar í Árneshreppi 2010 var hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði, en það er tvímælalaust meðal bestu kaffihúsa landsins, auk þess að vera frábær skákstaður. Norðurfjarðarmeistari varð Róbert Lagerman, sem hlaut 5 vinninga í 6 skákum. Í 2.-6. sæti urðu Jóhann Hjartarson, Hlíðar Þór Hreinsson, Guðmundur Gíslason, Hrafn Jökulsson og Gunnar Björnsson.

Gunnar, sem er forseti Skáksambands Íslands, skrifar skemmtilega frásögn sem ríkulega myndskreytt á skákfréttavefinn. Smellið hér til að lesa ferðasögu forsetans!

Það er óhætt að bóka strax þriðju helgina í júní 2011 fyrir næstu skákveislu á Ströndum!

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 22. júní 2010

Hátíðarguðsþjónusta í Árneskirkju.

Árneskirkja hin eldri.Hátíðarguðsþjónusta verður þar sunnudaginn 27 júní kl 14:00.
Árneskirkja hin eldri.Hátíðarguðsþjónusta verður þar sunnudaginn 27 júní kl 14:00.

Hátíðarguðsþjónusta verður í Árneskirkju eldri sunnudaginn 27. júní, kl. 14:00.

Þess verður minnst að 100 ár eru frá því að fyrst var leikið á orgel í kirkjunni.

Einnig minnst 160 ára afmælis kirkjunnar.

Séra Sigríður Óladóttir sóknarprestur mun þjóna fyrir altari.
Gunnsteinn Gíslason formaður sóknarnefndar flytur erindi í lok guðsþjónustunnar.

Kaffisamsæti verður í félagsheimilinu að lokinni athöfn.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 22. júní 2010

Vefurinn Reiknivél PFS opnaður.

Ráðherra Samgöngu og sveitarstjórnamála opnaði vefinn.Mynd Óskar Sæmundsson.
Ráðherra Samgöngu og sveitarstjórnamála opnaði vefinn.Mynd Óskar Sæmundsson.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur opnað vefinn Reiknivél PFS (www.reiknivél.is).  Tilgangur reiknivélarinnar er að auðvelda neytendum að átta sig á flóknum fjarskiptamarkaði og bera saman verð á þjónustuleiðum fjarskiptafyrirtækjanna fyrir heimasíma, farsíma og ADSL nettengingar. 
Reiknivél PFS tekur til algengustu innanlandsnotkunar á heimasíma og farsíma  og niðurhals á gögnum erlendis frá með ADSL tengingum.

Kristján L. Möller ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála opnaði vefinn í dag að viðstöddum gestum.

Hægt er að fara tvær leiðir við notkun vélarinnar fyrir heimasíma og farsíma:  Nota hreyfanlegan kvarða þar sem gengið er út frá meðalgildum fyrir litla til mikla notkun eða slá inn eigin tölur um notkun.  Við útreikning ber reiknivélin saman verðskrár fjarskiptafyrirtækjanna fyrir sambærilegar þjónustuleiðir. 
Nánar hér.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 22. júní 2010

Klénsmiðurinn í Kjörvogi.

Minja og handverkshúsið Kört.
Minja og handverkshúsið Kört.
Laugardaginn 26. júní opnar sýning í minja- og handverkshúsinu Kört í Trékyllisvík um þúsundþjalasmiðinn og yfirsetumanninn Þorstein Þorleifsson frá Kjörvogi sem uppi var á 19. öld. Dagskráin hefst kl. 14:00 með opnun sýningarinnar í Kört, en kl. 15:00 verður dagskrá í Félagsheimilinu í Trékyllisvík. Þar mun Hallgrímur Gíslason afkomandi Þorsteins halda erindi um Þorstein Þorleifsson og Hrafn Jökulsson fjallar um fréttaflutning úr Árneshreppi. Að erindunum loknum munu Árný Björk og Ellen Björg Björnsdætur syngja og spila nokkur lög. Léttar veitingar verða á boðstólum og allir velkomnir.
Handverkshúsið Kört opnaði 1 júní og verður opið daglega á milli 10:00 og 18:00 til 31 ágúst,eða eftir samkomulagi.
Netfangið vegna Kört er www.trekyllisvik.is

Atburðir

« 2025 »
« Maí »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Úr myndasafni

  • 21-09-2022.Borgarísjaki CA. 10 KM. NNA af Reykjaneshyrnu, eða CA. 15 KM. Austur af Sæluskeri. Virðist strandaður.
  • Dregið upp.
  • Naustvík 10-09-2007.
Vefumsjón