Umhleypingar í veðri næstu daga.
Veðurspá frá Veðurstofu Íslands.
Strandir og Norðurland vestra í dag og á morgun:
Norðaustan 10-18 m/s, snjókoma og síðar él. Norðan 8-13 í kvöld, en hægari og stöku él á morgun. Kólnandi, frost 2 til 7 stig í kvöld. Hiti kringum frostmark síðdegis á morgun.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á sunnudag:
Suðvestan 3-8 og stöku skúrir eða él. Hiti 0 til 7 stig. Snýst í norðaustanátt með dálítilli snjókomu á N- og A-landi um kvöldið. Kólnandi veður.
Á mánudag og þriðjudag:
Norðan- og norðaustanátt og él, en bjartviðri S- og V-lands. Frostlaust við suðvesturströndina að deginum, annars 0 til 8 stiga frost, kaldast norðaustantil.
Á miðvikudag og fimmtudag -(sumardagurinn fyrsti):
Austlæg eða breytileg átt og dálítil él á víð og dreif. Fremur kalt.
Deildafundir Kaupfélags Steingrímsfjarðar.
Kaupfélag Steingrímsfjarðar auglýsir hér með aðalfundi deilda félagsins sem haldnir verða dagana 19. og 20. apríl næstkomandi. Fundastaðir og tímar viðkomandi deilda eru eftirfarandi:
Aðalfundur Norðurdeildar: Mánudaginn 19. apríl kl. 17:30 á kaffistofu Fiskvinnslunnar Drangs ehf.
Aðalfundur Miðdeildar: Þriðjudaginn 20. apríl kl. 17:30 á skrifstofu Kaupfélagsins.
Aðalfundur Suðurdeildar: Þriðjudaginn 20. apríl kl. 20:00 á Sauðfjársetri á Ströndum, Sævangi.
Þá er aðalfundur Kaupfélags Steingrímsfjarðar fyrirhugaður þann 2. maí næstkomandi kl. 13:30 á Café Riis.
Lítil hætta á öskufalli á Ströndum.
Flug myndi leggjast niður á öllum Vestfjarðakjálkanum og víðar.
Enn nú sem betur fer fyrir okkar svæði eru veðurspár uppá NA eða Vestlægðaráttir næstu daga allavega.
Á fyrstu myndinni sem er hér með og er modis mynd frá því í gær,þar sem Ingibjörg Jónsdóttir hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands hefur sett inn stefnu öskufallsins.
Þar sem vefurinn Litlihjalli vísar oft til veðurspár hjá YR.NO eru hér myndir frá þeim,önnur myndin er af gosinu á Eyjafjallajökli hin af áhrifum öskufallsins til Noregs og annarra Norðurlanda.En flug lág víða niðri þar í gær og verður jafnvel svo í dag.
Víð ættum að geta áttað okkur á þessum myndum hvernig væri hjá okkur hér á Vestfjarðakjálkanum ef vindur væri í hina áttina og stæði hingað vestur.
Enn fljótt geta veður skipast í lofti,og við hér á Norðurlandi vestra og á Vestfjörðum skulum fylgjast vel með veðurspám hvort vindur muni breytast til suðaustlægra vindátta,þá gæti orðið hætta á hendi vegna öskufalls sérlega vegna búpenings.
Það skal tekið fram að veðurstöðin í Litlu-Ávík er með tvö hvít föt úti ef einhver aska skyldi berast,vegna snöggra vindáttabreytinga.
Viðgerðir á Trékyllisheiði.
Eins og íbúar Árneshrepps vita hefur verið í gangi viðgerðir á raflínunni á Trékyllisheiði. Þetta er viðhald vegna þess að bindingar þarna eru orðnar verulega tærðar og þótti full ástæða til að skipta um þær. Á mánudaginn skiptu Orkubúsmenn um bindingar á 43 staurum. Byrjað var við neyðarskýlið og skipt um á staurunum suður af heiðinni. Í gær var svo haldið áfram og skipt á 33 staurum. Áætlað var að skipta um bindingar á 107 staurum á þessu vori ásamt nokkrum stögum þannig að þessu er ekki lokið. Fyrirhugað er að klára þessa aðgerð í næstu viku og má búast við að það sé tveggja daga verk í svipaðan tíma og áður. Miðað við veðurspá núna er líklegast að það verði á þriðjudag og miðvikudag. Ástæðan fyrir því að þetta er gert núna er að það er þægilegast að nota snjóinn til að ferðast um og það er farið að hlýna og birta. Er það von okkar starfsmanna O.V. að þetta minki líkurnar á því að það bili rafmagn í Árneshreppinn á næstunni og að menn þurfi að berjast við viðgerð á þessum stað í vitlausu veðri yfir há skammdegið því oftast bilar þegar verstu aðstæður eru til að gera við og óþægilegast er að vera án rafmagns.
Segir í fréttatilkynningu frá OV.
Súpufundurinn óvenjulegur í dag.
Þetta kemur fram á www.strandir.is
Rafmagnið tekið af kl eitt í Árneshreppi.
Rafmagnið verður tekið af um kl eitt og frameftir degi,jafnvel lengur enn á mánudaginn.
"Starfsmaður Orkubúsins sagði í viðtali við vefinn Litlahjalla að þeyr Orkubúsmenn vonuðu að enginn Árneshreppsbúi hlypi upp til handa og fóta yfir þessu og kvartaði yfir þessu í netmiðlum eins og síðast.
Enda væri engin bein útsending vegna skýrslu vegna bankahrunsins núna,en gæti orðið bein útsending vegna nýja eldgosins.
Enn menn hjá Orkubúinu héldu frekar að hreppsbúar vildu að gert væri við og minnka líkur á bilunum."
Aðeins einn íbúi Árneshrepps kvartaði til Orkubús Vestjarða á mánudaginn 12 apríl,þegar rafmagn var tekið af síðast.
Lagasamkeppni vegna Hamingjudaga.
Hamingjudagar á Hólmavík-lagasamkeppni
Hafnarbraut 19
510 Hólmavík.
Að þessu sinni er heimilt að flytja lagið með eigin undirleik á úrslitakeppninni, svo ekki er nauðsynlegt að skila inn Demo eða lokaútgáfu lagsins.
Merkja skal texta með nafni lags og nafni og símanúmeri þess sem flytur lagið í úrslotakeppninni. Flytjandinn verður tengiliður höfundar varðandi undirbúning og flutning lagsins í lokakeppninni. Nafn höfundar ásamt heimilisfangi og símanúmeri skal fylgja með í lokuðu umslagi merkt með nafni lags og dulnefni höfundar.
Höfundur lagsins skuldbindur sig til að koma lokaútgáfu lagsins í þann búning sem hentar til spilunar í útvarpi fyrir 31. maí 2010.
Nánari upplýsingar gefur Kristín Sigurrós Einarsdóttir í síma 8673164 eða gegnum netfangið hamingjudagar@holmavik.is.
Meira
Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 6. apríl til 12. apríl 2010.
Í vikunni sem var að líða, vikan eftir páskahátíðina var frekar róleg hjá lögreglunni á Vestfjörðum,skemmtanahald um liðna helgi fór vel fram og án teljandi afskipta lögreglu.2 ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur,annar stöðvaður í Vestfjarðargöngunum og hinn í nágrenni Patreksfjarðar.
3 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í vikunni.Þriðjudaginn 6. apríl var óhapp við gangamunnann á Vestfjarðargöngunum Suðureyrarmegin með þeim hætti að þar fór vörubifreið þversum og lokaði umferð í nokkurn tíma, ástæða þess var að ökumaður blindaðist vegna snjókófs.Nokkuð greiðlega gekk að koma bifreiðinni af vettvangi og ekki um tjón að ræða. Þá varð minniháttar óhapp á Ísafirði þann 7. apríl. Fimmtudaginn 8. apríl varð bílvelta á Djúpvegi norðan við Steingrímsfjarðarheiði, þar hafnaði bifreið út fyrir veg, í bílnum voru fjórir aðilar og voru þeir fluttir á heilsugæslustöðina á Hólmavík, til skoðunar og í framhaldi fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til frekari skoðunar.Bifreiðin var óökuhæf og flutt af vettvangi með krana.
Miðvikudaginn 7. apríl var tilkynnt til lögreglu um þjófnað úr vinnuvélum frá Ísleifi Jónssyni verktaka sem sér um framkvæmdir á þjóðveginum í Vatnsfirði,þjóðvegi nr. 60.Þar var brotist inn í tvær vinnuvélar og stolið úr þeim talstöð og útvarpi. Fimmtudaginn 8. apríl var tilkynnt til lögreglu um þjófnað á númeraplötu af bifreið, skrásetningarnúmer ZS-332, þar sem bifreiðin stóð við Netagerð Vestfjarða. Þjófnaðurinn mun hafa átt sér stað á tímabilinu frá 3. apríl s.l. Þeir sem gætu gefið einhverjar upplýsingar um þessi mál hafi samband við lögregluna á Vestfjörðum, upplýsingasími 450-3730
Litlihjalli.is
Sú breyting hefur orðið á vefnum Litlahjalla sem er fréttasíða frá Árneshreppi á Ströndum,að veffangið (lenið)breytist í www.litlihjalli.ís en var (litlihjalli.it.is),þannig að it á undan .ís dettur út.
Eru lesendur Litlahjalla beðnir að uppfæra þetta í tölvum sínum.
Vefumsjón og hýsing er sem fyrr hjá vefumsjónarkerfi Snerpli sem Snerpa ehf á Ísafirði rekur.
Þar hefur vefurinn verið fluttur á nýjan og öflugan netþjón hjá Snerpu ehf á Ísafirði.
Einnig hefur vefkerfið Snerpill sem keyrir síðuna verið uppfært í nýjasta form kerfisins en stöðug þróun á kerfinu á sér stað.
Síðasta stórútlitsbreyting varð á Litlahjalla á vordögum 2008 eða um mánaðarmótin maí-júní það ár.