Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 2. mars 2010

Félag Árneshreppsbúa 70 ára.

Trékyllisvík.Mynd Jóhann KR.
Trékyllisvík.Mynd Jóhann KR.
1 af 2

Félag Árneshreppsbúa fagnar sjötíu ára afmæli.

Félag Árneshreppsbúa var stofnað í Oddfellow húsinu í Reykjavík tíunda apríl árið 1940.

Í fyrstu stjórn félagsins voru þeir Ólafur A Guðmundsson frá Eyri í Ingólfsfirði,og var hann kosinn formaður.

Símon Ágústsson frá Kjós við Reykjarfjörð var kosinn ritari félagsins og Jón Guðlaugsson frá Steinstúni var kosin gjaldkeri.

Á stofnfundinn 1940 mættu 23 einstaklingar.Síðan hefur félagið blómstrað og telja félagsmenn nú tæplega þúsund manns.

Núverandi stjórn Félags Árneshreppsbúa í Reykjavík skipa þau Kristmundur Kristmundsson sem er formaður,Sigríður Halla Lýðsdóttir,gjaldkeri og Ívar Benediktsson sem er ritari.

Meðstjórnendur og varamenn eru Hrönn Valdimarsdóttir,Guðrún Gunnsteinsdóttir,Þorgeir Benediktsson,Böðvar Guðmundsson og Guðbrandur Torfason.

Félagið hefur styrkt mörg góð málefni sem tengjast heimabyggðinni í Árneshreppi.

Á laugardaginn 20 mars næstkomandi verður haldin afmælishátíð í Hótel Sögu,og verður hún hin veglegasta.

Miðasalan á afmælishátíðina verður á sunnudaginn 7.mars í aðalinngangi Hótels Sögu á milli klukkan 14:00 og 16:00,og verður miðasalan og hátíðarhlaðborðið kynnt hér á vefnum nánar síðar.

 

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 2. mars 2010

Landsnet hefur nú tekið yfir alla stýringu 66 kV kerfis á Vestfjörðum.

Orkubú Vestjfarða á Hólmavík.
Orkubú Vestjfarða á Hólmavík.

Landsnet hefur haft þá stefnu að stjórna öllu sýnu kerfi út frá sinni stjórnstöð í Reykjavík og er þessi breyting liður í þeirri stefnu.  Sú skoðun hefur verið innan Orkubús Vestfjarða  að þessi stýring og gæsla ætti að vera áfram innan fyrirtækisins,þar sem henni hefur verið sinnt áfallalaust,en skilningur er þó á þessari ákvörðun Landsnets og þar tekið tillit til ábendinga OV.

Frá stofnun Orkubús Vestfjarða, hefur það stjórnað öllu raforkukerfi  á vestfjörðum frá 66 kV spennu og allt niður í lágspennu.  Árið 1987 var aðveitustöð í Stóruurð gerð fjarstýranleg og í dag er allt flutningskerfið fjarstýranlegt.


Landsnet var stofnað 2004 á grundvelli nýrra raforkulaga.Í kjölfarið lagði Orkubúið allt 66 kV flutningskerfi sitt,sem þá var,inn í Landsnet í staðinn fyrir eignarhlut í hinu nýstofnaða fyrirtæki.

Frá  1.janúar 2005 hefur verið í gildi samningur milli fyrirtækjanna,þar sem Orkubúið tekur að sér stýringu og gæslu 66 kV kerfis Landsnets á vestfjörðum.Gildistími þessa samnings lauk nú í morgun.

Samstarf Orkubús Vestfjarða og Landsnets hefur alla tíð verið mjög gott og er það von okkar að þessi breyting muni á allan hátt ganga vel,rafmagnsnotendum á vestfjörðum til heilla.
Segir í fréttatilkynningu á vef Orkubús Vestfjarða.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 2. mars 2010

Yfirlit yfir veðrið í Febrúar 2010.

Reykjaneshyrna.Oft var gott sjóveður í byrjun mánaðar og sléttur sjór.Mynd 8/2-2010.
Reykjaneshyrna.Oft var gott sjóveður í byrjun mánaðar og sléttur sjór.Mynd 8/2-2010.
1 af 2
Veðrið í Febrúar 2010.

Yfirlit yfir veðrið frá Veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Mánuðurinn byrjaði með hægviðri eða stillum yfirleitt og nokkru frosti fram til 8,þann 9 hlýnaði með suðlægum áttum fram til 13 dags mánaðar.

Síðan voru Norðlægar eða Norðaustlægar vindáttir með nokkru frosti út mánuðinn,með éljum eða snjókomu en dró úr frosti tvo síðustu daga mánaðar og komst hiti í plús tölur yfir hádaginn.

 

Yfirlit dagar vikur.


Meira
Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 1. mars 2010

Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 22 feb til 1 mars.2010.

Fjögur umferðaróhöpp urðu í síðustu viku.
Fjögur umferðaróhöpp urðu í síðustu viku.
Í vikunni sem var að líða var færð á vegum frekar slæm og akstursskilyrði þar að leiðandi ekki góð,snjór og ófærð víða.Þó nokkrar aðstoðarbeiðnir komu til lögreglu í vikunni,fólk fast í bílum sínum og var þeim beiðnum sinnt og var björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík kölluð út til að hjálpa vegfarendum,bæði á Steingrímsfjarðarheiði og einnig á leiðinni um Þröskulda.

Þá urðu fjögur umferðaróhöpp í umdæminu.Mánudaginn 22 feb. varð minniháttar óhapp á Ísafirði, ekki slys á fólki.Þriðjudaginn 23 feb.lenti bifreið út fyrir veg á Djúpvegi sunnan við Hólmavík,ekki slys á fólki,veður frekar leiðinlegt,lítið skyggni.Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík var fengin til aðstoðar og dró bifreiðina upp á veg aftur.Miðvikudaginn 24 feb.var tilkynnt um umferðarslys á Óshlíð,þar hafði jeppabifreið ekið utan í vegskála,líkleg ástæða fyrir óhappinu eftir að hafa mætt bíl.Ökumaður og fjórir farþegar hans voru fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði til skoðunar og bifreiðin flutt af vettvangi með krana.Fimmtudaginn 25 feb. hafnaði bifreið út fyrir veg í Súgundafirði,ekki slys á fólki og ekki miklar skemmdir á bifreiðinni,kranabíll fenginn til að ná bifreiðinni upp á veg aftur,líkleg ástæða fyrir óhappinu var mjög slæmt skyggni.

Þá hefur lögregla fylgst með búnaði ökutækja og kemur það fyrir að það þarf að hafa afskipti af ökumönnum vegna þessa og var það svo einnig í liðinni viku.Lögregla vill benda ökumönnum á að fara varlega í umferðinni,taka tillit til akstursskilyrða og haga akstri eftir aðstæðum.

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 28. febrúar 2010

Flogið í dag á Gjögur.

Flugvél Ernis á Gjögurflugvelli.
Flugvél Ernis á Gjögurflugvelli.
Nú var flogið í dag á Gjögur,ekki hefur verið flogið þangað síðan á mánudaginn 22 febrúar.

Ekki var hægt að fljúga á fimmtudag-föstudag og í gær vegna veðurs.

Vörur komu í dag,þar á meðal mjólk í útibú Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Norðurfirði,enda var það orðin nauðsin því mjólkurlaust var orðið þar.Farþegar komu og fóru.

Einnig kom póstur og fragt.

Næsta flug verður á Gjögur á þriðjudaginn 2 mars.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 26. febrúar 2010

Vatnavinir og Krossnessundlaug fá styrk.

Krossneslaug.
Krossneslaug.
Ferðamálastofa hefur úthlutað styrkjum vegna úrbóta á ferðamannastöðum 2010.
Alls bárust 260 umsóknir, sem er um 18% fjölgun frá 2009 sem þá var metár.

Heildarupphæð sem sótt var um var um 510 milljónir króna en til úthlutunar að þessu sinni voru 48 milljónir króna.
Umsóknir voru almennt mjög vel vandaðar og verkefnin áhugaverð. Því reyndist sérlega erfitt að velja á milli umsókna.
Vatnavinir sem eru samtök í heilsutengdri ferðaþjónustu fengu fimm styrki  í samstarfi við aðra.
Í Strandasýslu fengu Vatnavinir Vestfjarða og Ungmannafélagið Leifur Heppni 700.000 krónur vegna Krossnessundlaugar,og einnig fengu Vatnavinir og Kaldrananeshreppur 700.000 krónur vegna pottaþyrpingar við sæ á Drangsnesi.
Einnig fékk Vatnavinir Hollvinafélags Gvendarlaugar 500.000 krónur.
Lista yfir styrkþega má sjá hér.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 26. febrúar 2010

Ekkert flug í dag.

Flugstöðin Gjögurflugvelli.
Flugstöðin Gjögurflugvelli.
Nú er búið að aflýsa flugi til Gjögurs vegna veðurs eins og í gær.
Allsæmilegt veður var í morgun fyrst en frá hádegi var komin snjókoma og bætir í hana jafnt og þétt og vind einnig með miklum skafrenningi.
Veðurspá er slæm fyrir morgundaginn.
Óvíst er hvenær verður athugað aftur með flug á Gjögur.
Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 26. febrúar 2010

Telja jafnræðisregluna vera brotna.

Djúpavík.
Djúpavík.
Bæjarins besta.
Vertarnir á Hótel Djúpavík, hjónin Ásbjörn Þorgilsson og Eva Sigurbjörnsdóttir, undirbúa stjórnsýslukæru vegna þeirra ákvörðunar samgönguráðherra að hætta snjómokstri í Árneshreppi. Eva segir ákvörðunina koma mikið niður á rekstri hótelsins. „Við fengum gesti í janúar og febrúar en um leið og vegurinn lokast þá vitaskuld stoppar allt. Við erum bara að reyna berjast fyrir tilverurétti okkar því við verðum eins og aðrir að fá eitthvað í kassann til að geta borgað skatta og skyldur." Hún segir málið vera á byrjunarstigi en það sé langt og flókið ferli sem felst í því að leggja fram stjórnsýslukæru. „Maður stekkur ekkert bara út í svona. En við ákváðum að fara út í þetta því við teljum að jafnréttisreglan í stjórnsýslulögunum sé brotin þar sem við höfum ekki sömu möguleika og samkeppnisaðilar okkar fyrir sunnan eftir að mokstri var hætt."
Meira
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 25. febrúar 2010

Frá Félagi Árneshreppsbúa.

Merki Félags Árneshreppsbúa.
Merki Félags Árneshreppsbúa.
Tilkynning frá Félagi Árneshreppsbúa í Reykjavík:
Kæru félagsmenn.

Mig langar að vekja athygli á breyttum tíma forsölu miða inn á afmælishátíðina, sem verður haldin á Hótel Sögu þann 20.mars.

Forsalan verður sunnudaginn 7.mars í aðalinngangi Hótels Sögu  milli klukkan 14.00-16.00.

Nánari upplýsingar í nýja fréttabréfinu sem hefur væntanlega borist ykkur.

Einnig má sjá upplýsingarnar á Facebook:

http://www.facebook.com/reqs.php#!/pages/Felag-Arneshreppsbua/332432259816?ref=mf

Kær kveðja,

Kristmundur Kristmundsson, formaður Félags Árneshreppsbúa.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 25. febrúar 2010

Flugi aflýst.

Flugstöðin Gjögurflugvelli.
Flugstöðin Gjögurflugvelli.
Flugi hefur nú verið aflýst á Gjögur í dag,enda er NA 14 til 17 m/s og mikið dimmviðri,með mjög dimmum éljum og skafrenningi.
Flug verður athugað á morgun til Gjögurs,en spáin fyrir morgundaginn er ekki góð,því spáð er éljum í fyrstu en síðan snjókomu seinnipartinn,enn heldur minni vindi.
Ekkert var byrjað að moka veginn frá Norðurfirði til Gjögurs,það verður ekki gert fyrr enn lýtur sæmilega út með flug.

Atburðir

« 2024 »
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Úr myndasafni

  • Hafísjaki 6 KM vestur af Sæluskeri. 27-08-2018
  • Ragna og Jón Guðbjörn.
  • Kristján Guðmundsson grefur fyrir kapli og ljósastaur.13-11-08.
  • Íshrafl við Selsker,séð frá Litlu-Ávík.22-08-2009.
  • Borgarísjakinn 27-09-2017.
  • Við Fell 15-03-2005.
Vefumsjón