Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 8. mars 2010

Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum vikuna 1 til 8 Mars 2010.

Frekar rólegt hjá lögreglunni á Vestfjörðum í liðinni viku.
Frekar rólegt hjá lögreglunni á Vestfjörðum í liðinni viku.
Í vikunni sem var að líða gekk umferð í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum nokkuð vel ef frá eru talin þrjú umferðaróhöpp á Ísafirði,sem öll teljast minniháttar,tjón ekki mikil og ekki slys á fólki.

Í vörslu lögreglunnar er í óskilum Zodiac gúmbátur ásamt Evanrude utanborðsmót.Umræddur bátur hefur verið í höfninni í Bolungarvík um einhvern tíma og þeir sem gætu gefið einhverjar upplýsingar varðandi  bátinn eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum,varðstofa Ísafirði, sími 450-3730.

Skemmtanahald um helgina gekk vel í umdæminu og án teljandi afskipta lögreglu.

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 6. mars 2010

Frá Félagi Árneshreppsbúa.

Hátíðin verður haldin í Hótel Sögu laugardaginn 20 mars.
Hátíðin verður haldin í Hótel Sögu laugardaginn 20 mars.
Tilkynning frá Félagi Árneshreppsbúa í Reykjavík:
Forsala miðasölu á Afmælishátíð Félags Árneshreppsbúa verður á morgun sunnudag í aðalinngangi að Hótel Sögu á milli kl 14:00 og kl 16:00.
Miðaverð í mat og á dansleik er 7.900 kr og einungis á dansleik eftir mat og skemmtiatriði 2.500 kr.
Veislustjóri verður hinn frábæri Ragnar Torfason.
Skemmtiatriði verða úr smiðju heimamanna,að minnsta kosti munu þær Melasystur og Heimakórinn stíga á stokk.
Hljómsveitin Sixties leikur fyrir dansi að borðhaldi loknu.

Forsalan verður sunnudaginn 7.mars í aðalinngangi Hótels Sögu  milli klukkan 14.00-16.00.

Nánari upplýsingar í nýja fréttabréfinu sem hefur væntanlega borist ykkur.

Einnig má sjá upplýsingarnar á Facebook:

http://www.facebook.com/reqs.php#!/pages/Felag-Arneshreppsbua/332432259816?ref=mf

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 5. mars 2010

Matseðill og Hátíðarhlaðborð á 70 ára afmælishátíð Félags Árneshreppsbúa.

70 ára afmælishátíð Félags Árneshreppsbúa er í Súlnasal Hótel Sögu laugardaginn 20 mars.Mynd Golli mbl.is
70 ára afmælishátíð Félags Árneshreppsbúa er í Súlnasal Hótel Sögu laugardaginn 20 mars.Mynd Golli mbl.is

Hátíðarhlaðborð vegna 70 ára afmælis Félags Árneshreppsbúa í Súlnasal Hótel Sögu við Hagatorg laugardaginn 20 mars.
Matseðillinn:

Fordrykkur

Forréttir

Hægeldaður lax með mangó salsa

Appelsínu marineraður skelfiskur

Basil og engifer marineruð bleikja

Salat með grilluðum ananas og engiferdressingu

Kjúklingastrimlar í saté sósu

Túnfiskur í maki með sesamfræjum

Nautaþynnur á klettasalati

Aðalréttir

Kryddjurta marinerað lambalæri

Salvíukryddaðar kalkúnabringur

Ferskasti fiskur dagsins á grænmetis risotto

Kartöflugratín

Sykurbrúnaðar kartöflur

Fersk grænmetisblanda

Rauðvínssósa

Ábætisréttir

Ávaxtabakki

Kökur

Ís og tvær tegundir af sósum

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 5. mars 2010

Kjörfundur í Árneshreppi.

Kjörstaður í Árneshreppi er í Félagsheimilinu í Trékyllisvík.
Kjörstaður í Árneshreppi er í Félagsheimilinu í Trékyllisvík.
Tilkynning frá formanni kjörstjórnar í Árneshreppi.
Kjörfundur hefst í Árneshreppi í Félagsheimilinu í Árnesi kl 09:00 að morgni laugardagsins 6 mars.

Vegna Þjóðaratkvæðagreiðslunnar 6 mars 2010 um Icesave.

Á kjörskrá eru 43 alls.

Tuttugu og fjórir karlar og nítján konur samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 5. mars 2010

Rammaáætlun um nýtingu vatns og jarðhita.

Dynjandi.Mynd Ágúst G Atlason.
Dynjandi.Mynd Ágúst G Atlason.

Forgangsröðun í nýtingu vatnsafls og jarðhita er eitt af grundvallarmálum fyrir íbúa á Vestfjörðum.Eru virkjunarkostir á Vestfjörðum innan sjónmáls í þeirri forgangsröðun eða ekki.Ef ekki,hvaða aðgerða þarf þá að grípa til þess að samfélög og atvinnulíf á Vestfjörðum njóti sömu gæða og öryggis í raforkumálum líkt og aðrir landhlutar hafa haft um áratuga skeið.
Á vegum stjórnvalda hefur um tveggja ára skeið starfað verkefnisstjórn 2.áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði.Verkefnisstjórnin hefur fundað víða um land m.a. á Vestfjörðum og kynnt sér aðstæður og aflað viðamikilla upplýsinga.Skýrsla starfshópsins er nú tilbúin og upplýsinga og umsagnarferill hefst þann 8. mars n.k. og stendur til 19. apríl.Hefst sá ferill með kynningu skýrsla verkefnisstjórnar mánudaginn 8. mars n.k. og með fundi þriðjudaginn 9. mars kl 14.00 í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands (áður Kennaraháskólinn) að Stakkahlíð í Reykjavík.Fundurinn verður einnig sendur út á netinu,hægt er að fylgjast með útsendingu á vef rammaáætlunar einnig verður boðað til funda víða um land í framhaldnu, verða þeir auglýstir síðar.
Tengill á vef rammaáætlunar er http://www.rammaaaetlun.is

 

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 5. mars 2010

Mest traust borið til lögreglunnar.

Við hæfi er að hafa mynd af Lögreglukórnum við svona jákvæða frétt.
Við hæfi er að hafa mynd af Lögreglukórnum við svona jákvæða frétt.

Eitt meginmarkmið lögreglunnar skv. löggæsluáætlun 2007-2011 síðastliðinn ár hefur verið að veita bestu hugsanlegu þjónustu og vinna að því að efla og viðhalda trausti borgaranna.Gallup hefur kannað traust almennings til nokkurra stofnana og embætta frá árinu 1993.Lögreglan hefur undanfarin ár mælst með næstmesta traustið samkvæmt árlegum mælingum Þjóðarpúls Gallup,næst á eftir Háskóla Íslands.

Nú hefur breyting orðið á og samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi, sem kom út í mars,segjast rúmlega 81% bera mikið traust til lögreglunnar og hefur lögreglan aldrei mælst svo hátt.Háskóli Íslands sem lengst af hefur verið sú stofnun sem notið hefur mest trausts kemur þar á eftir en 76% bera mikið traust til hans.

Ríkislögreglustjóri lýsir ánægju með niðurstöðuna.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 4. mars 2010

Strandalamb í Húsavík kynntu framleiðsluna í beinni.

Frá V/Matthías Lýðsson og Hafdís Sturlaugsdóttir við tölvuna.Mynd Krisinn Schram.
Frá V/Matthías Lýðsson og Hafdís Sturlaugsdóttir við tölvuna.Mynd Krisinn Schram.
Á vikulegum súpufundi Þróunarsetursins og Arnkötlu 2008 í dag kynntu hjónin í Húsavík kjötframleiðsluna Strandalamb. Mjög góð mæting var á fundinum en 25 manns mættu í holdi og blóði og að auki 20 manns í gegnum netheima. Súpufundurinn var sendur út í fyrsta sinn beint á netinu og það er óhætt að segja að vel hafi til tekist. í lok fundarins birtist könnun á skjánum hjá netdvalarfólkinu þar sem leitað var upplýsinga um hvaðan fólk tengdi sig og hvernig hljóð og mynd hefði verið. Niðurstöður könnunarinnar birtast hér að neðan ásamt myndum frá fundinum en það er alveg ljóst að framhald verður á þessum útsendingum miðað við viðbrögð þátttakenda. Fyrstu endurbætur verða að koma upp betri hljóðnema fyrir útsendinguna og hvetja notendur enn betur til að nota höfuðtól í stað hátalaranna í tölvunum. Búnaðurinn sem notaður var heitir Netviewer og er keyrður á vefþjóni hjá Þekkingu hf.
Nánar hér á strandir.is.
| miðvikudagurinn 3. mars 2010

Skemmtilegt skólaferðalag

Lagt í hann! Kári, Ásta og Júlíana á Gjögri.
Lagt í hann! Kári, Ásta og Júlíana á Gjögri.
1 af 5
Krakkarnir í Finnbogastaðaskóla fóru í vel lukkað og skemmtilegt skólaferðalag nú í vikunni. Leiðin lá til Reykjavíkur og á tveimur dögum voru þau mjög athafnasöm: Skruppu í skautahöllina og bókamarkaðinn í Perlunni, þar sem þau skoðuðu líka hina stórkostlegu sögusýningu. Þá gæddu þau sér á veitingum á Hamborgarabúllunni og Lækjarbrekku, en hápunkturinn var leikhúsferð að sjá Oliver í Þjóðleikhúsinu.

Bókin um Óliver Twist hefur verið morgunlesning í Finnbogastaðaskóla síðustu mánuði og krakkarnir þekktu því söguna vel og lifðu sig inn í sýninguna. Það var svo til að kóróna frábæra heimsókn í leikhús allra landsmanna að þau fengu að kíkja bak við tjöldin áður en sýningin hófst.

Upphaflega stóð til að skólaferðalagið stæði í 4 daga, en þar sem flug frestaðist vegna veðurs varð ferðalagið styttra. Þau misstu þannig af heimsókn í sjónvarpshúsið, en þar var þeim boðið að vera við útsendingu á Útsvari, skemmtiþætti ársins. En þó krakkarnir hafi misst af því núna ætlar sjónvarpsfólk að taka vel á móti þeim næst.
Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 3. mars 2010

Djúpavík komin í vegasamband innan Árneshrepps.

Frá snjómokstri í gær.
Frá snjómokstri í gær.
1 af 3
Í gær var byrjað að opna veginn frá Gjögri og til Djúpavíkur norðanmegin með einu tæki.

Ekki var hægt að klára að opna þá,talsverður snjór er inn alla Kjörvogshlíð og mörg snjóflóð þó ekkert mjög stórt.

Í gær var mokað í Sætrakleif.Síðan kláraðist að opna nú eftir hádegið,alsog að stinga í gegn,eftir er að moka ruðningum útaf.

Heyrst hefur að það stæði til að opna norður frá Bjarnarfirði vegna kosninganna á laugardaginn.Þegar fréttamaður hafði samband við Jón Hörð Elíasson rekstrarstjóra hjá Vegagerðinni á Hólmavík"sagði hann að engin ákvörðun hafi verið tekin um það".

Hjónin í Djúpavík Eva Sigurbjörnsdóttir og Ásbjörn Þorgilsson ættu því að komast norður í kaupstað að versla og náð í póstinn sinn sem hefur safnast upp á þriðju viku.

Einnig þurfa þau hjón að komast á kjörstað norður í Trékyllisvík á laugardaginn vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave.

Enda kalla gárungar hér í Árneshreppi þetta,Isecave-mokstur.

Nokkrar myndir fylgja hér með og sjást þar litlir snjóboltar sem hafa rúllað niður hlíðarnar,jafnvel er hætta á snjóflóðum þegar hlýnar og eða í sólbráðinni
Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 3. mars 2010

Söluskáli og verslun sameinuð hjá KSH.

Kaupfélag Steingrímsfjarðar Hólmavík.
Kaupfélag Steingrímsfjarðar Hólmavík.
Ákveðið var á stjórnarfundi Kaupfélags Steingrímsfjarðar nú um miðjan febrúar að fara í viðamiklar breytingar og endurskipulagningu á rekstri félagsins á Hólmavík. Fela þær breytingar í sér að rekstur söluskála og verslunar KSH verður sameinaður undir einu þaki í húsnæði Kaupfélagsins að Höfðatúni 4.  Til að þetta sé mögulegt er nauðsynlegt að byggja við norðurenda húsnæðisins, og er ætlunin að sú viðbygging rými veitingasal söluskálans. Stefnt er á að byrja framkvæmdir í vor eða snemmsumars og að nýr söluskáli verði tekinn í notkun að vori 2011.

Þessi endurskipulagning kallar á talsverðar breytingar á tilhögun verslunar- og lagerrýmis í húsnæði KSH þar sem fyrirsjáanlegt er að núverandi verslunarrými muni að hluta nýtast undir söluskála og sameiginlegs anddyris verslunar og söluskála. Að sjálfsögðu verður leitast við að þessar framkvæmdir trufli sem minnst starfsemi Kaupfélagsins og valdi viðskiptavinum þess sem minnstu raski.

Í sambandi við þessar breytingar leitar Kaupfélag Steingrímsfjarðar eftir starfsmanni til u.þ.b. 6 mánuði til að aðstoða við framkvæmdir og endurskipulagningu á verslunar- og lagerrýmum, ásamt því að sinna almennum störfum og sinna afleysingum í byggingarvörudeild félagsins. Þeir sem áhuga hafa geta nálgast frekari upplýsingar hjá kaupfélagsstjóra, í síma 455-3101 eða á netfanginu jon@ksholm.is. Umsóknarfrestur er til loka dags mánudagsins 8. mars og þarf viðkomandi að geta hafið störf sem fyrst.

 

Atburðir

« 2024 »
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Úr myndasafni

  • Jón Guðbjörn og Tara við sjávarhitamælingu. Mynd Kristín Bogadóttir. 30-10-2015.
  • Íshrafl í Ávíkinni 28-12-2001.
Vefumsjón