Skemmtilegt skólaferðalag
Bókin um Óliver Twist hefur verið morgunlesning í Finnbogastaðaskóla síðustu mánuði og krakkarnir þekktu því söguna vel og lifðu sig inn í sýninguna. Það var svo til að kóróna frábæra heimsókn í leikhús allra landsmanna að þau fengu að kíkja bak við tjöldin áður en sýningin hófst.
Upphaflega stóð til að skólaferðalagið stæði í 4 daga, en þar sem flug frestaðist vegna veðurs varð ferðalagið styttra. Þau misstu þannig af heimsókn í sjónvarpshúsið, en þar var þeim boðið að vera við útsendingu á Útsvari, skemmtiþætti ársins. En þó krakkarnir hafi misst af því núna ætlar sjónvarpsfólk að taka vel á móti þeim næst.