Úrslit liggja fyrir í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og sigraði Ásbjörn Óttarsson, forseti bæjarstjórnar í Snæfellsbæ, í kjörinu og náði fyrsta sætinu. Einar K. Guðfinnsson þingmaður hafnaði í öðru sæti og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir bæjarstjóri á Tálknafirði varð þriðja. Birna Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar á Ísafirði hafnaði í fjórða sæti.
Ásbjörn er forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar. Hann er 46 ára, uppalinn á Hellissandi og búsettur á Rifi. Hann hefur starfað við sjómennsku og útgerð og rak fiskverkun á Rifi um nokkurra ára skeið. Hann rekur útgerðarfyrirtækið Nesver ehf. ásamt Margréti G. Scheving, eiginkonu sinni.
Röð efstu manna var sem hér segir:
1. Ásbjörn Óttarsson með 1.048 atkvæði í 1. sæti
2. Einar K. Guðfinnsson með 1.088 atkvæði í 1. - 2. sæti
3. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir með 1.045 atkvæði í 1. - 3. sæti
4. Birna Lárusdóttir með 1.193 atkvæði í 1. - 4. sæti
5. Bergþór Ólason með 1.082 atkvæði í 1. - 5. sæti
6. Sigurður Örn Ágústsson með 1.104 atkvæði í 1. - 6. sæti