Tíu milljónum úthlutað til að efla verslun.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Að þessu sinni var 10 milljónum króna úthlutað til að efla verslun í strjálbýli fyrir árið 2018 en alls voru gefin fyrirheit um styrki að upphæð 25,7 milljónum króna á árunum 2018-2021. Samningar vegna styrkjanna verða undirritaðir á næstunni.
Markmið með framlögunum er að styðja verslun í skilgreindu strjálbýli fjarri stórum þjónustukjörnum, þar sem verslun hefur átt erfitt uppdráttar. Framlögin koma m.a. til með að bæta rekstur verslana og skjóta frekari stoðum undir hann, m.a. með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu.
Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknirnar og gerði tillögur til ráðherra. Valnefnd bárust tuttugu umsóknir vegna framlaga til verslunar í strjálbýli. Sótt var um samtals kr. 65.286.756,- fyrir árið 2018 en samtals var sótt um kr. 202.245.756,- fyrir tímabilið 2018-2022.
Meira