Séð yfir Trékyllisvík og til Norðurfjarðar af Reykjaneshyrnu.
Varðar stöðu byggðar í Árneshreppi og þjónustu við íbúana
Íbúar Árneshrepps hafa um árabil búið við skerta þjónustu á vegum á veturna. Íbúum hefur fækkað mjög síðustu ár og má ekki síst rekja það til þeirrar staðreyndar að ungt fólk sættir sig ekki við þá algeru innilokun sem verulega skert vetrarþjónusta hefur í för með sér á tímabilinu janúar – mars ár hvert. Íbúar bundu um skeið miklar vonir við aðgerðir sbr. ályktun þingsins nr. 35/128, þann 15. mars 2003 „um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi“[1] en því miður varð lítið sem ekkert úr efndum á grundvelli hennar.
Unnið hefur verið að verkefninu Áfram Árneshreppur sem lið í verkefnum Byggðastofnunar og samstarfsaðila, Brothættum byggðum frá árinu 2017. Mörg markmið í verkefnisáætlun snúa að samstarfi og framtaki heimamanna en þau verkefni sem hvað brýnust eru fyrir viðgang byggðarinnar eru þó stóru innviðaverkefnin sem eru á valdi ríkis og stofnana þess. Það þolir að mati verkefnisstjórnar enga bið að þessi markmið verkefnisins hljóti athygli og stuðning ríkisins. Nú er svo komið að íbúarnir óttast að byggð leggist af verði ekkert að gert. Þar með væru varanlega glötuð mikil verðmæti sem felast í menningu og mannlífi í þessu sérstæða og afar fallega byggðarlagi.
Verslun í Norðurfirði var lokað síðsumars og verslunarrekendur fluttu úr byggðarlaginu. Ekki þarf að orðlengja að þessi staða er illþolandi fyrir íbúana og fyrirsjáanlegt er að enga vöru verður að hafa nema með því að panta sendingar með flugi. Verðlagning á flugsendingum er með þeim hætti að ekki verður við unað. Í gær, 13. desember 2018 var tilkynnt að verslun í Norðurfirði hlyti 2,4 mkr styrk árlega í þrjú ár og kann verkefnisstjórnin ráðuneytinu bestu þakkir fyrir þann styrk.
Hér með fer verkefnisstjórn verkefnisins Áfram Árneshreppur þess á leit við ríkisstjórn að eftirfarandi tillögur fái þegar framgang fyrir atbeina ríkisstjórnar:
Meira