Er þetta dauðadómurinn?
„Þetta er partur af langtíma hugsun hjá okkur. Við þurfum líka að byggja nýja spennustöð í Bolungarvík innan nokkurra ára þar sem núverandi spennustöð er á snjóflóðasvæði. Það gæti því verið skynsamlegt að byggja díselrafstöð og spennustöð á sama stað," segir Þórður. Þær díselrafstöðvar sem eru á Vestfjörðum er flestar komnar til ára sinna. „Hvað Landsnet varðar þá þarf að gerast annað af tvennu: Að byggja línu inn á svæðið eða fara út í önnur verkefni eins og að byggja díselrafstöð, sem er mun hagkvæmari kostur. Að byggja nýja línu er mjög dýrt þannig að það er ekki raunverulegur kostur þegar aðrir kostir eru í boði," segir Þórður.
Hér er verið að læða inn lausn á laumulega hátt, hér er ekki verið að bera saman epli og epli, langt því frá. Hér er aðeins verið að skoða hvað megi komast af með til að halda ljósum og hita á Vestfjörðum á meðan við flytjumst á mölina og bera það saman við línubyggingu sem við getum byggt upp samfélagið hér til framtíðar.
Ef á að bera saman varafl skal bera saman varaafl. Ef að það á að bera saman leiðir til uppbyggingar skal bera saman leiðir til uppbyggingar, en ekki blanda þessu tvennu saman. Það er augljóst að það eru engin plön um byggja upp til framtíðar á Vestfjörðum að hálfu Landsnets, enda skiljanlegt þegar skoðuð eru raforkulög og tilgangur fyrirtækisins.
Við skulum hafa það í huga að Landsnet rekur engin byggðarsjónarmið og tekur ekki tillit til neins nema að fylgja þeim lögum sem því er sett. Eins og lagaumhverfið (raforkulögin) er snýr að Landsneti í dag, verða að öllu óbreyttu engar nýjar línur lagðar til Vestfjarða né Hvalárvirkjun tengd inná raforkukerfi Vestfjarða. Svo að það sé mögulegt verður að breyta raforkulögum.
Hér er verið að læða inn lausn á raforkumálum Vestfirðinga sem er alls ekki fullnægjandi fyrir fjórðunginn. Það er fyrir löngu komin tími til að þing og sveitarstjórnarmenn okkar fari að vakna til lífsins. Það er ekki nóg að senda eina og eina ályktun frá sér ef henni er ekki fylgt eftir af krafti samanber þingsályktunar tillögu um niðurfellingu tengigjalds Hvalárvirkjunar . Boltinn er hjá ykkur þing og sveitarstjórnarmenn, ábyrgðin er ykkar eða kemur ykkur velferð Vestfjarða ekkert við?
Meira