Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 3. maí 2011

Nýr og endurbættur safetravel vefur.

Melar-Reykjaneshyrna.Myndasafn.
Melar-Reykjaneshyrna.Myndasafn.
Slysavarnafélagið Landsbjörg í samvinnu við marga aðila í ferðaþjónustu, meðal annars Ferðamálastofu, opnaði nýlega endurbættan safetravel-vef.

Á vefnum má finna margt sem ferðaþjónustuaðilar geta nýtt sér til að veita gestum sínum góðar upplýsingar um öruggari ferðalög á Íslandi. Mikið af efni sem tengist öryggis- og forvarnarmálum ferðamanna má finna á síðunni en meðal annars má benda á góða útbúnaðarlista fyrir ýmsar tegundir ferða, sprungukort fyrir jökla sem hala má niður eða prenta út svo og geta ferðamenn skilið eftir ferðaáætlanir sínar á vefnum.

Það er von Slysavarnafélagsins Landsbjargar að ferðaþjónustuaðilar eigi eftir að nýta sér þennan vef vandlega og bendi starfsmönnum sínum á slíkt hið sama enda má þar finna svör við fjölmörgum spurningum ferðamanna.

Slóðin er á: www.safetravel.is

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 2. maí 2011

Óvíst hvenær bjarndýrið kom.

Ratsjármynd frá 14.4. síðastliðnum. Þá var hafísspöng úti fyrir Vestfjörðum sem gæti hafa borið birni í átt að Hornströndum.Mynd jardvis.hí.is
Ratsjármynd frá 14.4. síðastliðnum. Þá var hafísspöng úti fyrir Vestfjörðum sem gæti hafa borið birni í átt að Hornströndum.Mynd jardvis.hí.is

Hafísjaðarinn hefur ekki verið mjög nærri landinu að undanförnu. Því getur allt eins verið að hvítabjörninn sem sást í Hælavík í morgun hafi ekki verið nýkominn, að mati Ingibjargar Jónsdóttur landfræðings hjá Jarðvísindastofnun. Einnig er mögulegt að bjarndýrið hafi synt langa leið til Íslands en hvítabirnir eru mjög vel syndir.

Sérfræðingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Siglingastofnunar og Hafrannsóknastofnunar eru nú að skoða hvernig aðstæður hafa verið í hafinu norðan við Ísland að undanförnu til að leita skýringa á komu hvítabjarnarins til Hornstranda.

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Jarðvísindastofnun HÍ, sagði við vef mbl.is,að hún ásamt Héðni Valdimarssyni hjá Hafrannsóknastofnuninni og Eysteini Má Sigurðssyni hjá Siglingastofnun hafa verið að rekja sig aftur í tímann hvað varðar legu ísjaðarsins og mögulegt rek hafíss norðan landsins.
Nánar hér á www.mbl.is
 

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 2. maí 2011

Hvítabjörninn felldur í Rekavík.

Ísbjörn á Svalbarða.Mynd YR.no.
Ísbjörn á Svalbarða.Mynd YR.no.

Eftir því sem kemur fram á vef Landhelgisgæslunnar var Hvítabjörninn felldur í Rekavík (Bakhöfn) á Hornströndum kl. 14.21.

Tilkynning barst Landhelgisgæslunni í morgun um hvítabjörn í Hælavík á Hornströndum. Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug á Ísafjörð þaðan sem flogið var á Hornstrandir í Hælavík. Þegar þangað var komið hafði dýrið fært sig um set og fannst eftir nokkra leit í Rekavík (Bakhöfn). Þoka var í efstu brúnum og var mikil yfirferð á dýrinu. Lögreglan á Ísafirði var með í för og mat aðstæður þannig að ómögulegt væri að vakta dýrið allan sólarhringinn á svæðinu og tryggja þannig að það færi ekki í sjó eða flytti sig um set í átt að byggð. Því var tekin ákvörðun um að fella dýrið af öryggisástæðum.

Unnið var í samræmi við viðbragðsáætlun um viðbrögð við landtöku hvítabjarna. Lögreglan á Ísafirði stjórnaði aðgerðum og með í för voru fulltrúar Umhverfisstofnunar, fulltrúi yfirdýralæknis ásamt reynslumiklum skyttum. Ísbjarnarhræið var flutt með þyrlunni til Ísafjarðar og verður flutt til Reykjavíkur þar sem Náttúrufræðistofnun Íslands mun taka við dýrinu og rannsaka.
Nánar á vef Landhelgisgæslunnar.

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 2. maí 2011

Ísbjörn sást í Hælavík.

Ísbjörn á Svalbarða.Mynd YR.NO.
Ísbjörn á Svalbarða.Mynd YR.NO.
Áhöfn fiskibáts sá ísbjörn í Hælavík á Hornströndum um klukkan níu í morgun og tilkynnti um hann. Landhelgisgæslan hyggst fljúga yfir svæðið innan tíðar.
Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 2. maí 2011

Með táning í tölvunni-sýnt í Árneshreppi.

Úr leikritinu.
Úr leikritinu.
Uppsetning Leikfélags Hólmavíkur á hinum sprellfjöruga gamanleik  „Með táning í tölvunni" eftir Ray Cooney hefur fengið fádæma góða aðsókn. Það er heimamaðurinn Arnar S. Jónsson sem leikstýrir og fara sjö leikarar með hlutverk í sýningunni og eru flestir þeirra að stíga sín fyrstu skref með leikfélaginu. Auk þeirra tekur annar eins fjöldi þátt í verkefnum á bak við tjöldin. Þrjár sýningar voru á Hólmavík um páskahelgina og þegar hafa rúmlega 300 hundruð manns séð sýninguna, sem lætur nærri að sé 80% af íbúafjölda á staðnum. Búið er að ákveða að næstu sýningar verði á Hólmavík laugardagana  7. maí og 21. maí og hefjast þær báðar kl 20. Þá er áformað að sýna á Patreksfirði, Þingeyri og Bolungarvík rétt fyrir sjómannadag og enda svo á sýningu í Árneshreppi kringum 17. júní. Leikfélagið á 30 ára afmæli á þriðjudaginn og auk þessarar uppfærslu er ætlunin að minnast afmælisins með fjölbreyttum hætti síðar á árinu.
Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 2. maí 2011

Frá ráðstefnu um atvinnu og byggðamál á Vestfjörðum.

Ráðherrarnir Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson.
Ráðherrarnir Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson.
1 af 2
Fréttatilkynning: 

Afar fjölsóttur fundur um atvinnumál á Vestfjörðum var haldinn á Ísafirði laugardaginn 30 apríl.  Fundinn sóttu um 150 manns víðsvegar að af Vestfjörðum.  Að fundinum stóðu verkalýðsfélög og atvinnufyrirtæki á svæðinu, til að vekja athygli á alvarlegri byggðaþróun á Vestfjörðum.  Framsögumenn fjölluðu um tækifæri, aðstæður og samkeppnisskilyrði atvinnufyrirtækja og leiðir til úrbóta.  Ráðherrarnir Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson, sátu fyrir svörum auk Guðna A Jóhannessonar, orkumálastjóra sem var fulltrúi iðnaðarráðherra.  Auk þeirra voru fulltrúar viðskiptabankanna, Fjárfestingarsjóðs Íslands og Orkubús Vestfjarða.

Fram kom í máli innanríkisráðherra að hann hefði skipað starfshóp undir forystu Guðmundar Kristjánssonar, hafnarstjóra á Ísafirði til þess að koma fram með tillögur um strandsiglingar. Var því vel tekið af fundarmönnum.  Auk þess lýsti ráðherra því yfir að mest væri þörfin fyrir samgönguframkvæmdir á Vestfjörðum og Austfjörðum og ættu framkvæmdir þar að njóta forgangs að vegafé.  Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, lýsti því yfir að fyrirhugaðar breytingar á löggjöf í sjávarútvegi ættu að styrkja stöðu strandveiða og að aukin byggðatenging og byggðafesta myndu styrkja samkeppnisstöðu sjávarbyggða. 


Meira
Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 1. maí 2011

Strandafrakt byrjaði áætlun í dag.

Bíll frá Strandafrakt.
Bíll frá Strandafrakt.

Nú í dag hóf Strandafrakt áætlunarferðir með flutningabíl frá Reykjavík Hólmavík-Norðurfjörður.
Bíllinn fer úr Reykjavík á þriðjudögum og þann dag til Hólmavíkur og til Norðurfjarðar á miðvikudögum.
Þessar ferðir standa út október.
Í maí var Strandafrakt búin að koma að sækja grásleppuhrognatunnur.
Eins og í fyrra kemur póstur með bílnum á miðvikudögum,því nú er aðeins flogið á mánudögum á Gjögur í sumar eins og fram hefur komið hér á vefnum.

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 1. maí 2011

Yfirlit yfir veðrið í Apríl 2011.

Þak fauk af í heilu lagi af litlu sumarhúsi í Norðurfirði í rokinu þann 10 apríl.
Þak fauk af í heilu lagi af litlu sumarhúsi í Norðurfirði í rokinu þann 10 apríl.
1 af 3
Veðrið í Apríl 2011.

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík. Mánuðurinn byrjaði með breytilegum vindáttum fyrstu daga mánaðar síðan voru ríkjandi suðvestanáttir eða suðlægar með frosti eða hita á víxl. Enn orðið sæmilega hlýtt síðustu viku mánaðar. Foktjón varð í sunnan og suðvestan ofsaveðri þann 10 apríl um kvöldið,þak fauk af í heilu lagi  af sumarhúsi í Norðurfirði og húsið skekktist til á grunni  veggir skemmdust og allar rúður brotnuðu. Í Kaupfélagshúsunum í Norðurfirði brotnuð nokkrir gluggar og ýmislegt fauk þar til. Vindur náði 12 vindstigum (eldra mæligildi) þann 10. í kviðum,eða 49 M/S.

Dagar eða vikur:


Meira
Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 30. apríl 2011

Félagsþjónustan kynnt í Árneshreppi.

Kynningin verður á Kaffi Norðurfirði.
Kynningin verður á Kaffi Norðurfirði.
1 af 2
Eins og kunnugt er tók sameiginleg Félagsþjónusta Stranda og Reykhóla til starfa um áramót og nær yfir fjögur sveitarfélög. Þjónustan er mikilvægur liður í áframhaldandi þróun og uppbyggingu á svæðinu.Félagsmálastjóri, Hildur Jakobína Gísladóttir, mun halda kynningu á Félagsþjónustunni á Kaffi Norðurfirði mánudaginn 2 maí kl 17:00 og eru allir íbúar hvattir til að mæta. Málaflokkar sem kynntir verða eru barnavernd, félagsleg ráðgjöf, fjárhagsaðstoð, heimaþjónusta og málefni aldraða og fatlaðra.
 Eftir kynninguna gefst íbúum tækifæri á að koma á framfæri hugmyndum sínum,vangaveltum og spurningum.
Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 29. apríl 2011

Flogið á Gjögur.

TF-ORD á Gjögurflugvelli.
TF-ORD á Gjögurflugvelli.
Flugfélaginu Ernum tókst að fljúga til Gjögurs í dag,en flugi var aflýst vegna veðurs fyrir sunnan í gær.

Póstur og vörur komu með vélinni að venju,enda var orðið mjólkurlaust eftir páskahelgina í útibúi Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Norðurfirði og skortur orðin á öðrum nauðsynjum.Enda var mikið af fólki í sveitinni yfir páskahátíðina.

Viku póstur kom með vélinni í dag en enginn póstur kom þegar flogið var síðast á annan í páskum.

Atburðir

« 2025 »
« Maí »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Úr myndasafni

  • Bílskúrseining sett á sinn stað.28-10-08.
  • Sumt þarf að flytja í traktorsskóflum.06-09-08.
  • Árnesstapar-Reyjkjaneshyrna í bakýn. 20-01-2017.
  • Seð yfir Trékyllisvík Litla-Ávík næst.
Vefumsjón