Frá skákhátðinni í fyrra.
Skákhátíð í Árneshreppi á Ströndum verður haldin fjórða árið í röð, 17. til 19. júní. Þetta er veisla sem snýst ekki bara um skák heldur skemmtilegt fólk úr öllum áttum í landsins fegurstu sveit! Hátíðin hefst föstudagskvöldið 17. júní og daginn eftir verður atskákmót í gömlu síldarverksmiðjunni þar sem teflt er um titil Djúpavíkurmeistara. Sunnudaginn 19. júní verður svo að venju hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði.
Jóhann Hjartarson verður meðal keppenda á hátíðinni núna, og freistar þess að verja titil sinn sem Djúpavíkurmeistari.
Mótið er öllum opið, börnum og fullorðnum, og eru veitt verðlaun í fjölmörgum flokkum. Meðal verðlauna verða peningar, nýjar bækur, geisladiskar, fatnaður og síðast en ekki síst munir af Ströndum, en þar eru handverkssnillingar á hverjum bæ.
Þá verða líka veitt verðlaun í aukaflokkum, til dæmis fyrir best klædda keppandann og háttvísasta keppandann.
Skákhátíðin á Ströndum er búin að vinna sér fastan sess í skáklífinu, enda Árneshreppur ólýsanlega fögur sveit sem býður upp á perlur við hvert fótmál. Þá er göldrótt stemmning á skákstað í gömlu síldarverksmiðjunni.
Hátíðin er tileinkuð Jóni Sigurðssyni frá Hrafnseyri, en hinn 17. júní eru 200 ár frá fæðingu frelsishetjunnar.
Dagskrá er svohljóðandi:
Föstudagur 17. júní klukkan 20: Tvískákmót í síldarverksmiðjunni í Djúpavík. (Tveir saman í liði.)
Laugardagur 18. júní klukkan 13: 9 umferða atskákmót í Djúpavík. Teflt um meistaratitil Djúpavíkur.
Sunnudagur 19. júní klukkan 13: Hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði. Keppt um meistaratitil Norðurfjarðar.
Áhugasamir hafi samband sem fyrst við Hrafn í
hrafnjokuls@hotmail.com eða Róbert í
chesslion@hotmail.com.
Fjölmargir gististaðir eru í Árneshreppi.