Síðsumars mun nýtt búnaðarblað hefja göngu sína.
Síðsumars mun nýtt búnaðarblað hefja göngu sína. Blaðið hefur hlotið nafnið Freyja til heiðurs Frey sem gefin var út í rúm 100 ár þar til fyrir nokkrum árum síðan. Útgáfufélagið Sjarminn mun gefa blaðið út en að bak því standa Axel Kárason, Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir sem öll hafa numið landbúnaðarfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands og er áhugafólk um framþróun innlends landbúnaðar. Jafnframt sjá þau um ritstjórn blaðsins.
Í Freyju verður miðlað hagnýtu fræðsluefni tengdu landbúnaði. Fyrsta árið mun Freyja koma fjórum sinnum út á ári og verður efni hvers blaðs nokkuð tengt árstíðum hverju sinni. Ýmsir fastaliðir verða í blaðinu þar sem sögunni verða gerð skil sem og að skyggnst verður út fyrir landssteinana. Meginuppistaða hvers blaðs verður þó ætíð fræðsluefni þar sem fræðimönnum og ráðgjöfum á sviði landbúnaðar gefst kostur á að miðla fróðleik til lesenda blaðsins.
Að baki ritstjórn er ritnefnd sem í sitja Gunnar Guðmundsson, sviðstjóri hjá Bændasamtökum, Bjarni Guðmundsson, Landbúnaðarsafni Íslands, Emma Eyþórsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands, Magnús B. Jónsson, nautgriparæktarráðunautur hjá Bændasamtökunum og Eiríkur Loftsson, ráðunautur hjá Leiðbeiningamiðstöðinni í Skagafirði.
Meira