Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 14. maí 2011

Áburður fluttur til bænda.

Verið að taka áburðarsekki af bílnum í Litlu-Ávík í dag.
Verið að taka áburðarsekki af bílnum í Litlu-Ávík í dag.
1 af 2
Þá er Kaupfélag Steingrímsfarðar farið að láta flytja áburðinn norður í Árneshrepp til bænda þar.

Björn Sverrisson er að flytja áburðinn norður nú um helgina á bíl með aftanívagn og kemur áburðinum í þrem ferðum.

Langt er síðan áburðaskip kom með áburðinn til Hólmavíkur,en nú þykir ekki hentugt lengur að skip komi á Norðurfjörð með áburð sem á að fara til bænda í Árneshreppi.

Stutt er síðan að Vegagerðin aflétti þungatakmörkunum  á veg 643 Strandaveg norður í Árneshrepp.

Áburður kom talsvert fyrr í fyrra til bænda eða á tímabilinu 10 til 13, en þá voru vegir fyrr þurrir,og þungatakmörkunum aflétt sennilega fyrr þótt fréttamaður muni það ekki eða haft tíma til að athuga það.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 12. maí 2011

Aðalfundur Orkubús Vestfjarða ohf. var haldinn á Ísafirði 9. maí 2011.

Hagnaður varð hjá OV.
Hagnaður varð hjá OV.
Orkubú Vestfjarða aflar sér raforku á samkeppnismarkaði og dreifir henni um eitt erfiðasta dreifisvæði landsins. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður er raforkuverð á Vestfjörðum, verðið að meðtöldum flutnings og dreifingarkostnaði, eitt hið lægsta í landinu.

Engu að síður er orkukostnaður heimila og fyrirtækja er hærri á Vestfjörðum en víðast annars staðar á landinu,  þrátt fyrir lágt rafmagnsverð, og er ástæðan sú að Vestfirðingar hafa ekki aðgang að ódýrari orkugjöfum en rafmagni til húshitunar. Það er mikilvægt að þessi búsetumismunun verði jöfnuð og meira fé renni til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði þar sem ekki er að finna ódýra orkugjafa til húshitunar.

Það er talsvert kostnaðarsamara að dreifa raforkunni í dreifbýli heldur en þéttbýli og greiða íbúar í dreifbýli töluvert hærra verð fyrir dreifingu raforkunnar þrátt fyrir niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Það er réttlætismál að þessar niðurgreiðslur verði auknar þannig að raforkuverð verði það sama í þéttbýli og dreifbýli.

 

Árið 2010 varð hagnaður af venjubundnum rekstri Orkubús Vestfjarða sjötta árið í röð. Afkoma Orkubús Vestfjarða varð heldur lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstraráætlun ársins gerði ráð fyrir rekstrarhagnaði að upphæð 300,5 Mkr. en samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður af venjubundnum rekstri fyrir skatta, sem nam um 240,4 Mkr., en þegar tekið er tillit til breytinga á tekjuskattsprósentu og bókfærðs tekjuskatts 2009 er hagnaður ársins um 208,3 Mkr..  Afskriftir námu alls 222,3 Mkr.. Eignir Orkubús Vestfjarða ohf. í árslok 2008 voru alls 5.637 Mkr. og heildarskuldir alls 742 Mkr. Eigið fé nam því alls 4.895 Mkr. sem er um 86,8 % af heildarfjármagni.


Meira
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 12. maí 2011

Vortónleikar.

Kór Átthagafélags Strandamanna.
Kór Átthagafélags Strandamanna.
Vortónleikar Kórs Átthagafélags Strandamanna verða haldnir í Árbæjarkirkju sunnudaginn 15. maí kl. 16:00

Stjórnandi er Krisztina Szklenár og undileikari á píanó er Kitty Kovács.
Allir hjartanlega velkomnir.

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 11. maí 2011

Útgáfutónleikar Guðjóns Rúdólfs.

Hótel Laugarhóll.
Hótel Laugarhóll.
Bjarnfirðingurinn heimskunni, GUÐJÓN RÚDOLF, sýnir sveitungum sínum þann heiður að halda tónleika í tilefni af útgáfu nýjustu hljómplötu sinnar, REGNBOGI, á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði, föstudagskvöldið 13. maí 2011 kl. 21:00.
Hljómsveitin DULARFULLA STJARNAN sem leikur með Gauja á tónleikunum er skipuð úrvals tónlistarmönnum en auk Guðjóns Rúdolfs Guðmundssonar eru þeir Þorkell Atlason - gítar, Júlíus Ólafsson - söngur og- gítar, Árni Kristjánsson - gítar, Eiríkur Stephensen - sax, Björn Erlingsson - bassi og Bjarni Friðrik Jóhannsson - trommur.
Aðgangseyrir er aðeins 1000 kr. og nú er bara um að gera að láta ekki þennan einstaka tónlistarviðburð fram hjá sér fara. Miða- og borðapantanir hjá Einari hótelstjóra í síma 698 5133 eða með tölvupósti á laugarholl@laugarholl.is
ALLIR VELKOMNIR !
Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 10. maí 2011

Landstólpinn – árleg viðurkenning Byggðastofnunar.

Séð yfir Trékyllisvík og Norðurfjörð af Reykjaneshyrnu.Mynd Jóhann K.
Séð yfir Trékyllisvík og Norðurfjörð af Reykjaneshyrnu.Mynd Jóhann K.
Ársfundur Byggðastofnunar verður haldinn í Vestmannaeyjum miðvikudaginn 25. maí n.k. Á fundinum verður í fyrsta sinn veitt viðurkenning Byggðastofnunar undir heitinu „Landstólpinn. Samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar".

Viðurkenningin skal veitt einhverjum þeim sem hefur vakið jákvæða athygli á landsbyggðinni með verkefni, starfsemi, umfjöllun á opinberum vettvangi eða með öðru móti. Viðkomandi gæti bæði hafa vakið athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags.

Um getur verið að ræða einstakling, fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélag.

Við óskum eftir ábendingum um handhafa þessarar viðurkenningar. Að ábendingum fengnum mun dómnefnd velja úr. Eftirfarandi þætti skal hafa í huga við valið:


Meira
Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 10. maí 2011

Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 2. til 9. maí 2011.

Tími nagladekkjanna liðinn.Mynd lögregluvefurinn.
Tími nagladekkjanna liðinn.Mynd lögregluvefurinn.
Umferð í umdæminu gekk nokkuð vel í liðinni viku, eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu, um var að ræða útafakstur í Arnarfirði, ekki slys á ökumanni, en talsverðar skemmdir á ökutæki.

Miðvikudaginn 4. maí var tilkynnt til lögreglu um skemmdarverk á tjaldsvæðinu í Tungudal í Skutulsfirði. Þar hafði bifreið verkið ekið yfirgrasið við nýja þjónustuhúsið og djúp hjólför eftir í grasinu. Ekki er vitað  hver þarna var að verki.

Sinueldur var kveiktur í Dufansdal í Arnarfirði sunnudaginn 8. maí. Slökkvilið Vesturbyggðar og Tálknafjarðar var kallað út og gekk greiðlega að slökkva, þó mátti litlu muna að eldur kæmist í kjarrgróður á svæðinu. Að gefnu tilefni vill lögregla koma því á framfæri að með öllu er óheimilt að kveikja í sinu, eftir 1. maí ár hvert. Vill lögregla biðja fólk að fara varlega með eld á víðavangi, þar sem gróður er þurr, því mikill skaði getur hlotist af ef óvarlega er farið.

Lögreglan á Vestfjörðum vill koma því á framfæri að tíma nagladekkjanna á þessu vori er liðinn og hvetur lögregla eigendur og umráðamenn bifreiða að gera viðeigandi ráðstafanir og mega þeir hinir sömu eiga von á sektum eftir 16.maí, ef ekki er úr bætt.

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 9. maí 2011

Vegur lokaðist.

Hjólaskófla við hreinsun ofan við Stórukleif.
Hjólaskófla við hreinsun ofan við Stórukleif.
1 af 3
Vegurinn til Norðurfjarðar var orðinn lokaður í morgun um níuleytið þegar bíll ætlaði um hann.

Mikið grjóthrun hefur verið í svonefndum Urðum veginum til Norðurfjarðar,í nótt og í morgun vegna hinnar miklu úrkomu sem var fram á morgun.Allstórir steinar voru í þessu.

Einnig var smá skriða í Hvalvík rétt norðan Árnesstapanna enn náði rétt í efra hjólfar.

Vegagerðin lét ekki opna fyrr enn í hádeginu.Það stytti alveg upp nokkru eftir hádegið.

Eins og fram hefur komið hér á vefnum mældist úrkoman 34,0 mm eftir nóttina á veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 9. maí 2011

Fjórir vilja vista hvítabjörninn.

Hvítabjörninn sem felldur var í Rekavík.Mynd Landhelgisgæslan.
Hvítabjörninn sem felldur var í Rekavík.Mynd Landhelgisgæslan.
Fjórir aðilar hafa sent Náttúrufræðistofnun erindi þar sem óskað er eftir því að fá hvítabjörninn nýskotna til varðveislu og þar af þrír á Vestfjörðum: Umhverfisstofnun fyrir gestastofu á Hornströndum, Núpur í Dýrafirði og Melrakkasetrið í Súðavík. Sá fjórði er í Fljótum í Skagafirði. „Það væri mjög gaman ef við fengum hann hingað til okkar," segir Jón Björnsson, forstöðumaður Hornstrandastofu aðspurður um málið. Ferðaþjónustubóndinn og kokkurinn Guðmundur Helgi Helgason á Hótel Núpi segist hafa heyrt að aðili utan Ísafjarðarbæjar hafi sóst eftir að fá að geyma dýrið og því hafi þeir ákveðið að sækja um að varslan kæmi í þeirra hlut. „Við gátum ekki hugsað okkur að dýrið færi annað, hann var skotinn hér og á því að vera í Ísafjarðarbæ."Segir Guðmundur við BB.ís
Nánar hér á Bæarins Besta.
Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 9. maí 2011

Mikil úrkoma eftir nóttina.

Úrkomumælir í Litlu-Ávík.
Úrkomumælir í Litlu-Ávík.
Mikið hefur rignt í nótt og í morgun og enn rignir mikið.

Úrkoman mældist 34,0 mm á veðurstöðinni í Litlu-Ávík frá kl.18:00 í gær og til kl.09:00 í morgun.

Mun þetta vera næstmesta úrkoma sem mælst hefur þar eftir 15 tíma,síðan mælingar hófust þar 1995.

Og var þetta næstmesta úrkoma sem mældist á landinu í nótt en mest var hún í Vík í Mýrdal 36,9 mm.

Jörð er á floti og margir nýir lækir myndast.

Það mun draga úr úrkomu í dag eftir veðurspá Veðurstofu Íslands.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 5. maí 2011

Sumarhúsið sem fauk lagfært.

Jón og Guðmundur negla járnið.
Jón og Guðmundur negla járnið.
1 af 2
Smiðir hafa verið í þessari viku að laga og eða endurbyggja sumarhúsið hans Kristjáns Andra Guðjónssonar sem skekktist til á grunni og þak fauk af því í roki þann 10. apríl síðastliðin.

Húsið var upphaflega byggt síðastliðið haust,og var finnskt bjálkahús um 24 fermetrar að stærð.

Smiðirnir Jón Gíslason og Guðmundur Sigurðsson hafa verið að rétta húsið af setja nýtt þak og járn.

Allt efni í sperrur og borð í klæðningu á þak var sagað í Litlu-Ávík.

Húsið er í Steinstúnslandi sem nefnist Giljapartur rétt fyrir ofan Sýkið í Norðurfirði.

Atburðir

« 2025 »
« Maí »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Úr myndasafni

  • Finnbogastaðir brenna,16-06-2008.
  • Séð yfir Trékyllisvík og til Norðurfjarðar af Reykjaneshyrnu.Mynd Jóhann.
  • NV hlið unnið við kjöljárn.Ási og Siggi.18-12-2008.
  • Jón Guðbjörn les af hitamælum.
  • Gunnsteinn Gíslason.
Vefumsjón