Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 8. september 2010

Vikan hjá lögreglunni á Vestfjörðum 30.ágúst til 6. september 2010.

Ekið var á átta lömb og þrjár ær,sem tilkynnt var til lögreglu.
Ekið var á átta lömb og þrjár ær,sem tilkynnt var til lögreglu.

Í  s..l. viku var einn ökumaður stöðvaður vegna gruns um fíkniefnaaksturs. Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu. Eitt minniháttar óhapp á Hnífsdalsvegi, þar var ekið á ljósastaur, ekki slys á fólki. Sunnudaginn  5. sept var tilkynnt um umferðarslys við Dynjanda í Arnarfirði þar hafði bifhjólamaður dottið og talið að hann hafi slasast á baki og var hann fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Ísafiðri til skoðunar, reyndist minna slasaður en talið var í fyrstu. 
Þá varð umferðarslys á Laxárdalsheiði  6. sept., þar valt húsbíll út fyrir veg. Þar voru erlendir ferðamenn á ferð og fjórir í bílnum. Einn var fluttur með sjúkrabíl  til  Reykjavíkur til skoðunar. Bifreiðina þurfti að fjarlægja af vettvangi með krana.

Þá var tilkynnt til lögreglu að  ekið hafi verið á  átta lömb og þrjár ær. 
Þá voru höfð afskipti af nokkrum ökumönnum vegna rangrar ljósanotkunar og rætt við nokkra ökumenn vegna vanbúnaðar á ljósum.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 7. september 2010

Nýr skólastjóri og kennari við Finnbogastaðaskóla.

Starfsfólk og nemendur Finnbogastaðaskóla.
Starfsfólk og nemendur Finnbogastaðaskóla.
1 af 2
Nokkrar breytingar hafa nú orðið á starfsfólki við Finnbogastaðaskóla nú á nýju skólaári.

Elín Agla Briem hætti sem skólastjóri en hún var búin að vera skólastjóri frá árinu 2007,eða í þrjú ár.

Við tók Elísa Ösp Valgeirsdóttir sem skólastjóri,en hún hafði áður leist Elínu af í barnseignafríi.

Nýr kennari Sigurrós Sandra Bergvinsdóttir kom til starfa nú á haustdögum,hún kemur frá Grundarfirði á Snæfellsnesi en er ættuð frá Munaðarnesi hér í sveit.

Stundakennari verður sem fyrr Ingvar Bjarnason.

Hrefna Þorvaldsdóttir er matráður og er búin að vera það til margra ára.

Nú bættist einn nemandi við skólann frá í fyrra það er hún Þórey Ingvarsdóttir og eru nemendur nú fjórir.

Hinir þrír nemendurnir eru Júlíana Lind Guðlaugsdóttir,Ásta Þorbjörg Ingólfsdóttir og Kári Ingvarsson.

Kvenfólk er í meiri  hluta bæði sem nemendur og starfsfólk.

Finnbogastaðaskóli var settur miðvikudaginn 25 ágúst.

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 6. september 2010

Ný stjórn og formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga.

Albertína Elíasdóttir var kosin nýr formaður Fjórðungssambands Vestfjarða.Mynd Skutull.is
Albertína Elíasdóttir var kosin nýr formaður Fjórðungssambands Vestfjarða.Mynd Skutull.is

Ný stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga var kjörin á 55. Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var á Hólmavík þann 3. og 4. september, s.l.  Í stjórn voru kjörin Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ísafjarðarbæ, Friðbjörg Matthíasdóttir, Vesturbyggð, Jón Jónsson, Strandabyggð, Ómar Már Jónsson, Súðavíkurhreppi og Sigurður Pétursson, Ísafjarðarbæ. Þingið kýs formann úr hópi stjórnarmanna og var Albertína Elíasdóttir, Ísafjarðarbæ kjörinn formaður. Í varastjórn voru kjörin þau, Baldur Smári Einarsson, Bolungarvíkurkaupstað, Birna Benediktsdóttir, Tálknafjarðarhreppi, Guðfinna Hreiðarsdóttir, Ísafjarðarbæ, Jóna Benediktsdóttir, Ísafjarðarbæ og Sveinn Ragnarsson, Reykhólahreppi. 

Í fastanefnd um samgöngumál voru kjörin þau Elías Jónatansson, Bolungarvíkurkaupstað, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Tálknafjarðarhreppi, Guðbrandur Sverrisson, Kaldrananeshreppi og Gústaf Jökull Ólafsson, Reykhólahreppi. Til vara voru kjörin þau Guðfinna Hreiðarsdóttir, Ísafjarðarbæ, Eiríkur Kristjánsson, Reykhólahreppi, Jón Gísli Jónsson, Strandsbyggð og Magnús Ólafs Hansson, Vesturbyggð. Stjórn Fjórðungsambands Vestfirðinga velur einn fulltrúa úr stjórn sambandsins til að sitja í nefndinni, hann verður valinn á fyrsta fundi stjórnar.
Ályktun 55.Fjórðungsþings Vestfjarða má í heild sjá hér.

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 5. september 2010

Bændur smala heimalönd.

Fé rekið í átt að Ávíkurá.
Fé rekið í átt að Ávíkurá.
1 af 5
Á föstudaginn 3 september byrjuðu bændur að smala heimlönd sín.

Byrjað var að þessu sinni að smala Naustvíkurskörð og niður til Trékyllisvíkur og rekið inn í Bæ.

Einnig var þann dag smalað Finnbogastaðalandið.

Á laugardag voru smalaðir Bæjar og Árnesdalurinn,og fé rekið inn í Bæ og Árnesi 2.

Í dag var smalað eyðibýlið Stóra-Ávík og rekið inn í Litlu-Ávík,síðan var smalað hluti Gjögurlands til Kjörvogs.

Síðan er öllu fé sleppt út á heimatún eftir að búið er að sortera féð og  vigta lömbin.

Bændur segja erfitt að eiga við féð í þessum hitum,fé vill ekki niður og eða gefst fljótt upp.

Svona mun þetta ganga fyrir sig í næstu viku haldið áfram að smala heimalönd fram að fyrstu skyldu leitum,en norðursvæðið verður leitað dagana 10 og 11 september og réttað á Melum síðari daginn.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 3. september 2010

Mikill hiti í gær.

Hitamælar í mælaskýlinu í Litlu-Ávík.
Hitamælar í mælaskýlinu í Litlu-Ávík.
Nú í vikunni hefur verið mjög hlýtt í veðri norðan og vestan til á landinu,og spáð er mjög hlýju veðri fram yfir næstu helgi allavega.

Eins og annarsstaðar á norðvesturlandi var mjög hlýtt í Árneshreppi í gær,og á veðurstöðinni í Litlu-Ávík mældist mesti hiti dagsins þar 18,7 stig sem er enn sem komið er mesti hiti sumarsins þar,september telst til sumarmánaða í útreikningum hjá Veðurstofu Íslands.

Næstmesti hiti sumarsins var 15 ágúst nýliðnum 18,1 stig.

Hvort þessi hiti í gær verði mesti hiti sumarsins skal ósagt látið.

Ekki er þessi hitabylgja neitt í líkingu við hitabylgjuna sem gekk yfir landið í ágúst 2004,enn þá voru slegin mörg hitamet á veðurstöðvum á landinu.

Þá var slegið hitamet á veðurstöðinni í Litlu-Ávík sem var 13 ágúst 2004 og mældist hámarkshiti dagsins þá 26,0 stig,og er það mesti hiti sem mælst hefur í Árneshreppi síðan að veðurstöðvar voru settar þar upp,og stendur það met ennþá.

Fyrra metið var á veðurstöðinni á Grænhóli við Reykjarfjörð,þann 24 júní 1925.23,0 stig.Sú stöð var starfrækt frá árinu 1921 og til ársins 1934.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 2. september 2010

Yfirlit yfir veðrið í Ágúst 2010.

Urðarfjall-Urðartindur-25-08-2010.
Urðarfjall-Urðartindur-25-08-2010.
Veðrið í Ágúst 2010.

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.

Mjög hægviðrasamt var fram yfir miðjan mánuð og mjög hlýtt í veðri.

Úrkomulítið var fram undir miðjan mánuð,en síðan fór að vera úrkomusamara og heldur fór að kólna í veðri og fór að bæta í vind.

Mánuðurinn var samt mjög hlýr í heild.

Berjaspretta er talin mjög góð.

Veðurathugunarstöðin í Litlu-Ávík varð 15 ára þann 12 ágúst.


Meira
Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 1. september 2010

55. Fjórðungsþing Vestfirðinga, 3. og 4. september.

Frá Fjórðungsþinginu í fyrra.Mynd BB.ÍS.
Frá Fjórðungsþinginu í fyrra.Mynd BB.ÍS.

Fimmtugasta og fimmta Fjórðungsþing Vestfirðinga verður sett á Hólmavík kl. 10.30 föstudaginn 3. september næstkomandi, þingið mun standa fram á laugardag. Þingið fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík og þar verða nefndarstörf einnig. 

Á þinginu mun Aðalsteinn Óskarsson framkvæmdastjóri Fjórðungssambandsins og Þorgeir Pálsson framkvæmdarstjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða kynna framvindu í sóknaráætlun fyrir Vestfirði. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra mun ræða um undirbúning aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins. Arnheiður Jónsdóttir verkefnastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga og Sigurður H. Helgason framkvæmdarstjóri Stjórnarhátta ehf munu fjalla um eflingu velferðarþjónustu sveitarfélaga og flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Fastanefndar um samgöngumál mun kynna skýrslu sína. Ýmsar stofnanir sem sinna málefnum Vestfirðinga og starfa á Vestfjörðum kynna starfsemi sína á þinginu.

Auk framangreinda munu Kristján L. Möller, samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra og Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga ávarpa þingið.

Á þinginu verður kjörin ný stjórn sambandsins, formaður stjórnar, samgöngunefnd og Heilbrigðisnefnd Vestfjarða. Þá verður að venju hefðbundin dagskrá,  afgreiðsla þingmála og fleira.

Dagskrána má nálgast í heild á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga, www.fjordungssamband.is

Fyrirspurnum um þingið svarar formaður stjórnar Anna Guðrún Edvardsdóttir, í síma 864 0332.

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 1. september 2010

NMT kerfið kvatt.

3 G dreifikerfi Símans.
3 G dreifikerfi Símans.

Í dag lokar Síminn NMT kerfinu sem hefur í áratugi þjónað öryggishlutverki bæði til sjós og lands og Síminn hefur rekið með miklum sóma.  Nú er ekki lengur unnt að reka kerfið þar sem það er barns síns tíma og ekki lengur framleiddur búnaður í það til uppfærslu. Við lokun NMT kerfisins á Íslandi er það eingöngu rekið í Póllandi og Rússlandi að því er fram kemur á Wikipedia.  Það má því með sanni segi að ekkert eimi eftir af því sem NMT stendur fyrir;  Nordisk Mobil Telefoni.

Sem kunnugt er hefur Síminn ráðist í umfangsmikla uppbygginu 3G farsímakerfis ásamt því að bæta hefðbundna GSM-kerfið mikið. Þrátt fyrir mikla útbreiðslu nýju kerfanna er ekki tryggt að samband verði á öllum svæðum sem nú njóta NMT-þjónustu en með réttu vali á búnaði má minnka eyður þar sem ekki næst samband. Viðskiptavinir NMT hafa verið upplýstir og bent á að GSM/3G þjónustan sé í langflestum tilfellum fullnægjandi og oft mun betri en NMT þjónustan var. Heildarútbreiðsla GSM/3G kerfa er  í dag mun viðameiri en útbreiðsla NMT kerfis var nokkru sinni sé miðað við handsímaþjónustu. Noti fólk hins vegar loftnet og beini (router) verður dekkunin ennþá meiri.


Meira
Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 1. september 2010

Önnur önnin í svæðisleiðsögn.

Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða leiðir hópinn um Hólmavík.
Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða leiðir hópinn um Hólmavík.

Nú er að hefjast önnur önnin í svæðisleiðsögn um Vestfirði og Dali, en það er rúmlega 200 stunda nám sem Fræðslumiðstöðin bíður upp á í samvinnu við Leiðsöguskóla Íslands. Rúmlega 30 manns taka þátt í þessu námi og munu þeir hittast á þriðju helgarlotunni að Núpi í Dýrafirði um næstu helgi.

Námið, sem veitir þátttakendum réttindi til að starfa sem svæðisleiðsögumenn, er afar fjölbreytt. Meðal þess sem tekið er fyrir eru svæðalýsingar, jarðfræði, gróður og dýralíf, tungumálanotkun, saga og atvinnulíf og fleira tengt svæðinu. Náminu mun ljúka á vorönn 2011. Um er að ræða blöndu af staðnámi og fjarnámi, þátttakendur hittast á helgarlotum sem eru átta á námstímanum en þess á milli fer námið fram í gegnum netið. 

Verkefnistjóri svæðisleiðsögunámsins er Kristín Einarsdóttir starfsmaður Fræðslumiðstöðvarinnar á Hólmavík.

 

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 30. ágúst 2010

Ekki flogið á fimmtudögum fyrr enn í október.

TF-ORF á Gjögurflugvelli.
TF-ORF á Gjögurflugvelli.
Ekki hefur verið flogið á Gjögur á fimmtudögum í sumar eða í júní,júlí og ágúst.

Að sögn Ásgeirs Þorsteinssonar markaðsstjóra Flugfélagsins Ernis,verður svo einnig í næsta mánuði september,en flug hefst aftur á Gjögur með tvær ferðir í október næstkomandi.Verður þá flogið á mánudögum og fimmtudögum.

Í sumar hefur aðeins verið flogið á mánudögum og verður svo út október.

Verður þetta því í fjóra mánuði sem ekki er flogið tvisvar í viku til Gjögurs.

Eins og áður hefur komið fram hér á vefnum kemur póstur með flutningabílnum á miðvikudögum,en með fluginu á mánudögum.

Atburðir

« 2024 »
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Úr myndasafni

  • Séð að Felli 15-03-2005.
  • Séð til Gjögurs af Reykjaneshyrnu.Reykjanesrimar.
  • Norðvestur veggur,vinnuljós inni að kvöldi 27-10-08.
Vefumsjón