Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 17. júní 2009

Sumargleði og barnapössun á Melum.

Frá Melum.
Frá Melum.

Nýjasta nýtt á Ströndum:  Badda og Björn ætla nú í sumar að bjóða upp á

barnapössun á Melum í Trékyllisvík. Þetta er tilvalið fyrir fólk, sem ætlar í gönguferðir á Hornströndum og í siglingu með Reimari á Sædísinni. Sumargleði á Melum er fyrir börn 5 til 12 ára. Þetta er líka tilvalið fyrir börn sem vilja kynnast skemmtilegu sveitalífi.

 

Bjarnheiður Fossdal og Björn Torfason eru bændur á Melum í Trékyllisvík. Badda er búin að vera leiðbeinandi við Finnbogastaðaskóla nær 30 ár. Þau hjón bjóða upp á barnapössun frá 22. júní til 5. ágúst eða eftir samkomulagi.  Einstök upplifun fyrir öll börn á aldrinum frá 5- 12 ára! Tekið er á móti þremur til fjórum börnum í einu þannig að ekki mun skorta fjörið á bænum. 

 

Ýmislegt er gert með börnunum og verður næg útivist í boði. Farið verður í gönguferðir, fjöruferðir og í sund. Börnin fá að gefa heimalningum og ærslast í heyinu. Nóg pláss er fyrir ýmsa leiki utandyra sem innan, boltaleiki og feluleiki. Svo verður ábyggilega bakað ofan í mannskapinn. 

 

Hafið samband í síma 4514015 eða sendið póst á netfangið bjf@ismennt.is.

Einnig er hægt að nálgast upplýsingar og sjá fleiri myndir á www.melar.blog.is

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 17. júní 2009

Frábær sýning Leikfélags Hólmavíkur í Trékyllisvík í gærkvöldi.

1 af 4
Leikfélagið sýndi leikritið Viltu finna milljón? sem er gamanfarsi eftir Ray Cooney í leikstjórn Arnars S Jónssonar.

Leikritið er í tveimur þáttum með stuttu hléi á milli.

Leikfélag Hólmavíkur er þriðja leikfélagið á Íslandi sem setur leikverkið upp,en áður var það sett upp í Borgarleikhúsinu 2007 við fádæma vinsældir og síðan hjá Leikfélagi Sauðárkróks í Sæluviku 2008.

Um fimmtíu manns komu á sýninguna  í Félagsheimilinu í Árnesi  í gærkvöldi og hlógu gestir mikið allan tímann.Í lok sýningar voru leikendur margklappaðir upp og fagnað mikið.
Nokkrar myndir koma hér með frá leikritinu.

Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 16. júní 2009

Ár frá brunanum mikla á Finnbogastöðum.

Elín og dóttirin Jóhanna afhenda Munda bókina Strandamenn Æviskrár.
Elín og dóttirin Jóhanna afhenda Munda bókina Strandamenn Æviskrár.
1 af 3
Nú í dag er eitt ár frá brunanum mikla á Finnbogastöðum,þar sem Guðmundur Þorsteinsson slapp naumlega út enn missti allt sitt,og einnig hundana sína tvo.

Guðmundur hefur dvalið í Bæ hjá systur sinni á meðan að uppbyggingu stóð,og smiðir og aðrir sem komu að til að vinna í húsinu héldu til og voru í fæði hjá Guðbjörgu Þorsteinsdóttur.

Nú er Guðmundur Þorsteinsson á Finnbogastöðum fluttur inn þótt ókláruð séu svo sem loft nema í svefnherbergisálmu,í eldhúsi er Mundi komin með allar græjur en skápahurðir vantar enn.Í stofu er komið sjónvarp og stólar en allt óklárað þar.

Mundi flutti inn um sauðburðinn eða 21 maí,enda styttra í fjárhúsin og sofið var á dýnum á gólfinu.Dóttir Munda Linda kom heim um miðjan maí í sauðburðinn hjá föður sínum og fór hún strax að sofa í nýja húsinu sem og Þorsteinn sonur Munda og Guðbrandur fóstursonur hans,en hann vann mikið í húsinu í vetur og vor.

Fyrsta póst fékk Mundi á Uppstigningadag 21 maí,þegar Jón Guðbjörn færði honum fyrsta póst í nýja húsið á Finnbogastöðum.

Nú er komin nýr köttur sem hlotið hefur nafnið Lína,og einnig er þar nú hundur sem Þorsteinn Guðmundsson á sem heitir Perla,enn verður ekki þar til frambúðar.

Þannig að heimilisdýr eru komin sum til að vera enn önnur um tíma.

Í dag færði Elín Agla Briem skólastjóri ásamt dótturinni Jóhönnu,Guðmundi bókina Strandamenn Æviskrár 1703-1953.

Hrafn gat ekki verið við vegna þess að hann er að standsetja Skákmótið sem verður í Djúpavík um helgina.

| mánudagurinn 15. júní 2009

Meistarar af öllum stærðum í Djúpavík

Meistarar. Róbert og Helgi Ólafsson glíma í Djúpavík 2008. Skákinni lauk með jafntefli eftir miklar sviptingar.
Meistarar. Róbert og Helgi Ólafsson glíma í Djúpavík 2008. Skákinni lauk með jafntefli eftir miklar sviptingar.
1 af 2
Fjöldi skákmanna hefur skráð sig til leiks á Minningarmóti Guðmundar Jónssonar frá Stóru-Ávík, sem fram fer í Djúpavík á laugardaginn. Stigahæstur er Jóhann Hjartarson, en af öðrum meisturum má nefna Henrik Danielsen, Þröst Þórhallsson, Róbert Lagerman, Gylfa Þórhallsson, Björn Þorfinnsson, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Gunnar Björnsson, nýkjörinn forseta Skáksambands Íslands.

Þá er og útlit fyrir góða þátttöku heimamanna og eru skákmenn á öllum aldri hvattir til að vera með. Vinningar eru veittir í nokkrum flokkum, enda gnægð verðlauna á mótinu, ekki síst fyrir börn.

Á heimasíðu mótsins er hægt að finna allar upplýsingar, en að auki er hægt að hringja þráðbeint í Hrafn Jökulsson (sími 4514026) eða Róbert Lagerman (6969658).

Slóðin á heimasíðuna er: www.skakhatid.blog.is

Þá eru allir Strandamenn og gestir í Árnesherppi hjartanlega velkomnir á setningu skákhátíðar í Árneshreppi, sem fram fer í síldarverksmiðjunni í Djúpavík á föstudagskvöldið klukkan 20.
Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 15. júní 2009

Viltu finna milljón í félagsheimilinu Árnesi.

Annað kvöld þriðjudaginn 16. júní kl 20,sýnir Leikfélag Hólmavíkur "Viltu finna milljón" eftir Ray Cooney í leikstjórn Arnars S. Jónssonar í Félagsheimilinu Árnesi í Trékyllisvík.

Og er þetta allra síðasta sýning á þessari uppsetningu.

 

| sunnudagurinn 14. júní 2009

Vel lukkað Strandhögg í Árneshreppi

Sól í Ávík. Viðar Hreinsson spjallar um Jón lærða, sem bjó um skeið í Stóru-Ávík.
Sól í Ávík. Viðar Hreinsson spjallar um Jón lærða, sem bjó um skeið í Stóru-Ávík.
1 af 2
Rútufylli af þjóðfræðingum, sagnfræðingum og fleiri góðum gestum gerðu Strandhögg í Árneshreppi um helgina og nutu blessunar veðurguða, enda skartaði sveitin okkar sínu fegursta.

Dagskrá var fjölbreytt og fróðleg. Rakel Valgeirsdóttir frá Árnesi var leiðsögumaður hópsins, sem skoðaði síldarverksmiðjuna í Djúpavík, hlýddi á fyrirlestra á Gjögri, Stóru-Ávík, Kistuvogi og Kört. Síðan brá hópurinn sér í Krossneslaug og loks var slegið upp gleðskap í Hótel Djúpavík á laugardagskvöldið.

Fréttaritari hlýddi á fyrirlestur Más Jónssonar sagnfræðings í flutningi Sigurðar Gylfa Magnússonar. Erindið var flutt í Kistuvogi, í landi Stóru-Ávíkur, en þar voru þrír bændur í Árneshreppi brenndir á báli í september 1654. Már hefur hinsvegar látið í ljósi eindregnar efasemdir um að Kistuvogur sé hinn raunverulegi aftökustaður. Þessi sjónarmið komu fram í bók hans Galdrar og siðferði í Strandsýslu á síðari hluta 17. aldar, sem Strandagaldur gaf út á síðasta ári, og voru áréttuð í fyrirlestrinum í Kistuvogi.

Hér er ekki tóm til að rekja röksemdir Más, sem telur að brennan hafi farið fram í Árnesi, en óhætt er að segja að sjónarmið hans falli í grýttan jarðveg á Ströndum og meðal áhugafólks um galdrafárið á 17. öld. Jón Jónsson þjóðfræðingur flutti andmæli í Kistuvogi, þar sem hann hrósaði bók Más, fyrir utan tilraun hans til að flytja brennuna milli staða. Sagði Jón að þar hefði Már komist að "stórkostlega fáfengilegri niðurstöðu", sem á engum rökum væri reist. Jón færði mjög sannfærandi rök fyrir því að Kistuvogur hefði einmitt verið aftökustaðurinn og benti þar að auki á meinlega villu í útreikningum Más.
Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 12. júní 2009

Ljósmyndasýningin NV Vestfirðir á Kaffi Norðurfirði.

Frá Norðurfirði.Mynd ÁGA.
Frá Norðurfirði.Mynd ÁGA.
1 af 2
Ljósmyndasýningin NV Vestfirðir er farin af stað um vegi Vestfjarða og hefur fyrsti bærinn verið heimsóttur, en valinn var sá staður sem er fámennastur og trúlega erfiðast að komast á, en 10 myndir voru settar upp á Kaffi Norðurfirði, í Norðurfirði í Árneshreppi. Kaffi Norðurfjörður opnaði einmitt í dag, 12. júní og verður ýmislegt gert til þess að gera opnunina sem skemmtilegasta og þótti tilvalið að opna sýninguna sama dag. Nýr rekstraraðili sér um Kaffi Norðurfjörð næstu 3 árin. Sýning þessi hlaut styrk frá Menningarráði Vestfjarða og gerði því áhugaljósmyndaranum Ágústi G. Atlasyni kleyft að heimsækja fleirri staði en stóð til. Skiptir því svona styrkur öllu máli fyrir sýninguna. Sýndar eru myndir frá Árneshreppi sem teknar voru síðasta sumar og eru þær prentaðar á venjulegan ljósmyndapappír og límt á foam í stærðinni A3. 
Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 12. júní 2009

Kaffi Norðurfjörður opnaði í dag.

Einar Ó Sigurðsson og Ellen Björnsdóttir.
Einar Ó Sigurðsson og Ellen Björnsdóttir.
1 af 2
Nú í dag opnaði Kaffi norðurfjörður formlega og verður opið frá kl 11.00  til 19.30 alla daga og lengur ef einhverjar uppákomur eru,eða eftir samkomulagi.

Nú fara siglingar Reimars á Sædísinni að byrja norður á Strandir,fólk fær sér yfirleitt eitthvað á Kaffi Norðurfirði fyrir brottför og þegar komið er aftur þá er það oft fólk sem búið er að vera á göngu um lengri eða skemmri tíma á Ströndum.

Einar Óskar Sigurðsson er nú vert á Kaffi Norðurfirði í eldhúsinu eru með honum Ellen og Árný björnsdætur á Melum og Númi Íngólfsson í Árnesi 2.

Ágúst G Atlason er með ljósmyndasýningu á Kaffi Norðurfirði.
| föstudagurinn 12. júní 2009

Samgönguráðherra í heimsókn í næstu viku

Siglfirðingurinn Kristján Möller.
Siglfirðingurinn Kristján Möller.
Kristján Möller samgönguráðherra kemur í heimsókn í Árneshrepp föstudaginn 19. júní. Þetta er fyrsta ferð Kristjáns á Strandir sem þarna fær tækifæri til að kynnast aðstæðum og hlýða á sjónarmið heimamanna. Kristján fer með samgöngumál, fjarskiptamál og sveitarstjórnarmál í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, en óhætt er að segja að allir þessir málaflokkar snerti íbúa hér.

Gert er ráð fyrir að Kristján fundi með íbúum í Kaffi Norðurfirði og hitti síðan hreppsnefnd Árneshrepps. Þá verður ráðherrann gestur á skákhátíðinni, sem hefst sama dag.

Kristján er fæddur á Siglufirði 1953 og hefur setið á Alþingi fyrir Samfylkinguna í 10 ár, þar af tvö ár sem samgönguráðherra. Ánægjulegt er að fá ráðherrann í heimsókn í sveitina til skrafs og ráðagerða.
Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 11. júní 2009

Strandhögg á laugardag í Árneshreppi.

Á meðal þess sem skoðað verður er Kistan,eða Kistuvogur eins og heimamenn kalla hann,eða þar sem galdrabrennur fóru fram í Trékyllisvík.
Á meðal þess sem skoðað verður er Kistan,eða Kistuvogur eins og heimamenn kalla hann,eða þar sem galdrabrennur fóru fram í Trékyllisvík.

Nú á laugardaginn 13 júní munu þjóðfræðingar og sagnfræðingar vera á ferð um Árneshrepp.
Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er „Strandhögg" en umfjöllunarefnið tengsl Íslands við umheiminn; jaðars og miðju, bæði í staðbundnu samhengi sem alþjóðlegu. Meðal annars verður vikið að blómlegri síðari alda handritamenningu á jaðri Evrópu; iðkun ímynda norðursins á erlendri grundu; iðnaði erlendra þjóða á Íslandi 17. aldar í óþökk konungs; förumönnum og þjóðfræði á mörkum mennskunnar; og framtíð fræða og lista á landsbyggðinni. Auk þess verður sagt frá þjóðfræði og sögu Stranda. Fyrirlestrarnir verða fluttir á hinum ýmsu áföngum ferðarinnar og á málþingi í Bragganum á Hólmavík á sunnudeginum.

Áhugasamir heimamenn eru hvattir til að slást í för og hlýða á og taka þátt í Strandhögginu og er þeim bent á tímaáætlun fyrirlestra á vefsíðu Þjóðfræðistofu www.icef.is. Nánari upplýsingar má einnig fá hjá Kristni Schram í síma 8661940 og dagskráin er hér að neðan.

Dagskráin er í stuttu máli þannig (tímasetningar á laugardegi geta breyst):


Meira

Atburðir

« 2025 »
« Júlí »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Úr myndasafni

  • Ágústa og Þórólfur í Sparisjóðnum.
  • Hrafn -og systkinin Guðbjörg og Guðmundur.22-08-08.
  • Séð að Felli 15-03-2005.
  • Unnið við kjöljárn,Ástbjörn og Sigursteinn.18-12-2008.
  • Íshrafl í Hvalvík 13-03-2005.
Vefumsjón